144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:23]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að óska flutningsmönnum til hamingju með þessa þingsályktunartillögu. Mér finnst hún virkilega góð og hnitmiðuð. Ég held að ég geti svo að segja verið sammála öllum þeim 11 áherslupunktum sem koma fram í henni.

Ég held að það sé svolítið sérstakt á Íslandi, ef við horfum til allra Evrópulanda, hversu rosalega hátt hlutfall íbúanna býr á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það sé ekkert annað land í Evrópu þar sem svo háttar til að jafnvel 80% af íbúunum búa á því sem má kalla atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Okkur hefur einhvern veginn ekki tekist að snúa vörn í sókn en flest lönd eru með markvissar aðgerðir til að efla dreifðari byggðir. Það er fróðlegt að horfa til Noregs í því sambandi og jafnvel Svíþjóðar. Menn hafa svo sem reynt og eitt og annað hefur verið gert en það svolítið tilviljanakennt. Kannski má segja að þessi flutningur á Fiskistofu sé einmitt dæmi um skort á stefnu og meira verið að henda í einhverjar aðgerðir.

Ég tek undir það sem hefur verið sagt um sóknaráætlanir landshluta. Það kom mér virkilega á óvart hversu mikið var skorið niður í þeim lið í síðustu fjárlögum. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2014 voru settar inn 15 milljónir. Liðurinn fór úr 400 milljónum niður í 15 milljónir. Síðan var aðeins bætt í, væntanlega milli 2. og 3. umr., og endað í 100 milljónum.

Ég fór á ráðstefnu um sóknaráætlanir á Akureyri fyrr á árinu og skildi það svo að þær 100 milljónir sem hefðu verið settar í sóknaráætlanir í ár væru til að halda sjó og síðan kæmi innspýting á næsta ári, 2015. Það lítur hins vegar ekki út fyrir að það verði. Það eru settar 15 milljónir í fjárlagafrumvarpið en reyndar á að setja í viðbót 85 milljónir. Þar urðu einhver mistök.

Við erum sem sagt að tala um 100 milljónir í verkefni sem almenn sátt var um. Allir voru sammála um að það hefði verið mjög gáfulegt verklag að setja völdin í hendur heimamanna, að þeir úthlutuðu peningunum.

Þetta voru vonbrigði.

Ég get einnig tekið undir með samgöngurnar. Samgöngur og fjarskipti eru algjört forgangsmál, það er mikil uppsöfnuð þörf fyrir viðhald á vegum landsins. Hér er minnst á Norðfjarðargöng sem verða mikil samgöngubót og svo Dýrafjarðargöng þegar þau fara af stað. Svo eru líka Fjarðargöng sem mundu hjálpa Seyðfirðingum mikið. Ég held að þau þurfi að fara næst á dagskrá.

Hér er talað um húshitunarkostnað. Þetta eru allt mál sem við höfum rætt á þinginu fram og til baka og nú er bara orðin spurning um að ganga í að framkvæma.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er einnig dæmi um sjóð sem var skorinn virkilega mikið niður eftir að ný ríkisstjórn tók við. Það er alveg óskiljanlegt hvað var skorið niður þar, reyndar bætt í síðan í ár án þess að það færi í gegnum Alþingi. Það kemur inn á fjáraukalögum þannig að við þurfum að skoða þá aðgerð. Það liggur alveg fyrir að það þarf að setja peninga í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Höfuðborgarsvæðið, Reykjavík kannski, nýtur þess að ferðamennirnir koma, gista og eyða peningum. Svo fara þeir í ferðir út um landið. Þeir njóta þess líka, geri ég ráð fyrir, í mun meira mæli á Akureyri að fá ferðamennina í bæinn þar sem þeir gista og borða og fara svo í ferðir hingað og þangað, t.d. að Goðafossi. Þar þarf að sinna göngustígum og byggja upp og gera bílastæði en ferðamennirnir skilja ekki endilega neitt eftir í því sveitarfélagi. Þess vegna er ósköp eðlilegt að skattpeningar okkar allra fari í uppbyggingu ferðamannastaða.

Í 11. tölulið er talað um sameiningar heilbrigðisstofnana. Hæstv. heilbrigðisráðherra lætur lítið uppi um þetta þannig að mér finnst ég ekki geta metið hvort þetta er slæmt eða gott. Ég veit bara ekki hvaða afleiðingar þetta hefur. Þarna held ég að það væri betra ef hæstv. ráðherra legði bara spilin á borðið og fengi okkur jafnvel með. Hann er sannfærður um að þetta sé gott mál. Ég hefði þá viljað að hann sannfærði þingið um það en get kannski ekki alveg kvittað undir að þetta sé endilega afturför. Við þurfum að sjá hvað gerist í því.

Hér er einnig talað um raforkuflutninga sem eru gríðarlega mikilvægir. Mér finnst eins og það sé eiginlega farið yfir allt það sem máli skiptir í þessari þingsályktunartillögu og ég vona að hún verði samþykkt og komi til framkvæmda.

Það er einn liður sem ég hefði bætt við. Við þurfum að minnsta kosti að horfa á það atriði sem varðar stefnu um opinber störf. Það þyrfti að vera stefnumótun um að þegar ný opinber störf verða til verði þau til úti á landi.

Við höfum talað um Fiskistofu. Ég er persónulega hlynnt því að höfuðstöðvar stofnana eigi að vera úti á landsbyggðinni. Svo geta verið útibú í Reykjavík. Fiskistofa er gott dæmi um stofnun sem ætti að vera úti á landi en ég er algjörlega ósammála því með hvaða hætti framkvæmdin er. Mér finnst hún ekki góð. Það er rétt sem hefur verið sagt í þessari umræðu, störfin leka jafnt og þétt af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Jafnvel er heilu stofnununum lokað og það heyrist ekkert mikið um það. Við erum bara vön því. Svo reka menn upp harmakvein þegar á að loka stofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna skiptir máli að gera þetta almennilega. Það er talað um fimm ár í skýrslunni sem ég vitnaði í þegar ég ræddi við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um flutning Fiskistofu þannig að þá getur orðið náttúruleg endurnýjun á starfsfólki. Aðferðin finnst mér ekki góð en þetta ætti að vera hluti af byggðaáætlun, með hvaða hætti við flytjum störf út á land eða tryggjum að opinberum störfum sé jafnar dreift um landið. Opinber störf eru takmörkuð gæði og á sumum stöðum eru einu opinberu störfin beinlínis sveitarfélögin. Ríkið er ekki atvinnuveitandi sem neinu nemur. Það sem skiptir máli við uppgang á Akureyri eru stórar og mikilvægar stofnanir af hálfu hins opinbera, eins og háskólinn, framhaldsskólarnir og sjúkrahúsið. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir bæinn.

Ég held að ég hafi í sjálfu sér ekkert meira um þetta að segja. Ég er ánægð með þetta plagg og óska okkur aftur til hamingju.