144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[18:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrri ræðu sinni sagði hv. þingmaður: Við horfum fram á nýjan tíma. Í seinni ræðunni sagði hann: Við stöndum á barmi kalds stríðs. Er hann þá að segja að hinn nýi tími sé kalt stríð og við þær aðstæður sé best að draga sig út úr bandalaginu? Ég held ekki. Ég held að þetta sé fullkomin þverstæða hjá hv. þingmanni. Ég tala auðvitað sem maður sem er þeirrar skoðunar að hvað sem mönnum finnst um Atlantshafsbandalagið, og ég hef ekki alltaf verið mjög hrifinn af þeim selsskap, þá sé það ákveðinn neyðarhemill. Ég get ekki annað en horfst í augu við þá staðreynd. Ég tel að eins og staðan er í heiminum í dag og í Evrópu sérstaklega þá sé það algerlega nauðsynlegt, t.d. til að tryggja sjálfstæði þessara þriggja ríkja. Ég gæti haldið langar ræður um það en ég tel ekki æskilegt endilega að fyrrverandi utanríkisráðherra sé að úttala sig um það á miklu dýpi. Það er hins vegar hugsanlegt að þegar hv. þingmaður stendur við hótanir sínar um hinar löngu ræður þá verði dregin fram móðir allra ræðna um þetta mál. Þetta vildi ég segja af fyllstu vinsemd við hv. þingmann.

Hann segir að við stöndum á barmi kalds stríðs í Evrópu. (ÖJ: Já.) Ég held ekki. Ég held að við séum nú þegar í köldu stríði. Það er því miður hugsanlegt að miklu heitara skeið sé að færast nær okkur. Það er hægt að halda því fram að við stöndum á jaðri heitrar styrjaldar. Ég tel t.d. að þeir sem búa í vesturhluta Úkraínu líti svo á. Ég hugsa að staða Úkraínu væri allt önnur ef ríkið væri t.d. innan Atlantshafsbandalagsins. Það stóð aldrei til vegna landfræðilegra og pólitískra ástæðna. Þetta er mín skoðun. Svo til að hafa sagt það, af því að hv. þingmaður orðaði það eins og hann gerði, þá var Krím hluti af Úkraínu.