144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[18:58]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eystrasaltsríkin voru hluti af Sovétríkjunum og þar var komin skýringin á því að NATO vildi ekkert gera í málunum. Það að viðurkenna þjóðríki, að það megi ekkert hrófla við því. Þetta er umræða sem hefur farið fram víða um heiminn en þarna skáru Íslendingar sig úr vegna annarrar afstöðu, vegna þess að við hlustuðum á fólkið og vildum vita hvað það vildi gera.

Ég er tilbúinn að taka umræðu um hlutdeild NATO og þess vegna Evrópusambandsins í atburðunum sem áttu sér stað í Úkraínu. Ég verð að segja að ég hef komist að þeirri niðurstöðu að NATO er ekki félagsskapurinn sem forðar okkur frá heitu stríði eða frá átökum og þess vegna köldu stríði.

Við gerum grein fyrir því í greinargerð okkar með þingsályktunartillögunni að NATO hefur verið að leita sér að nýju hlutverki og hefur nú fundið hlutverkið. Ef hv. þingmaður heldur því fram að NATO hafi verið að reyna að bera klæði á vopnin í öllum þessum aðdraganda og í öllu þessu ferli þá held ég að hann fari villur vegar. Ég er tilbúinn að taka þá umræðu hvenær sem er.