144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[19:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri nú ekki hræddur við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og er almennt þeirrar skoðunar að það sé góð leið til að jafna ágreining. Hins vegar er ég ósammála þeim hv. þingmönnum VG sem hér hafa talað um að einhver sérstaklega mikill og djúpur ágreiningur sé um veru okkar í NATO um þessar mundir. Ég held að svo sé ekki.

En það er annað sem ég ætlaði að koma að: Við verðum alltaf, þegar við förum yfir söguna, að greina rétt frá henni. Við eigum ekki að falsa hana, við eigum alltaf að segja rétt frá. Hv. þingmaður kom hingað eins og hvítskúraður engill og ræddi hin ýmsu stríð sem hún sagði að herstjórar íslenska lýðveldisins hefðu att íslensku þjóðinni út í. Þar á meðal var Líbíustríðið en þá var ég utanríkisráðherra. Hvernig var það mál afgreitt af hálfu utanríkisráðherra sem þá var? Hann ræddi það hér í þinginu, gerði það með eins lýðræðislegum hætti og hægt var. Það var tekið til sérstakrar umræðu hér. Og alveg sama hvað VG segir í dag, þá getur það ekki breytt þeirri staðreynd að í þeirri umræðu lýstu allir þingmenn sig samþykka þeirri ákvörðun sem tekin var, þ.e. að Ísland legðist ekki gegn þessu. Það er vert fyrir hv. þingmann að fara og lesa þingtíðindin og skoða sérstaklega ræður þingmanna VG. Þeir voru ekki ósammála því.

Tveir þingmenn VG töluðu í þeirri umræðu og voru því sammála. Annar þeirra talaði með þeim hætti að ég, í þeirri umræðu og síðar, túlkaði ræður hennar á þann veg að hún hefði gengið lengst allra, hún taldi að við slíkar aðstæður, sem þá voru að skapast í Líbíu, hefði þjóð eins og Ísland skyldu til að bregðast við. Það var enginn í þingsal sem talaði gegn þessu, enginn frá VG á þeim tíma þegar ákvörðun var tekin og þess vegna var hún tekin.

Síðan kom það auðvitað fram, þegar menn skoðuðu þetta mál (Forseti hringir.) og atburðum vatt fram, að þá urðu menn annarrar skoðunar. Það breytir því ekki að VG var ekki á móti því á þeim tíma.