144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[19:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Rétt skal vera rétt. Menn geta haft allar skoðanir á því hvernig atburðarásinni í Líbíu vatt síðan fram. Menn geta þess vegna dregið ansi stórtækar afleiðingar af núverandi stöðu þegar þeir velta fyrir sér ákvörðunum sem þá voru teknar. Það breytir engu um það að þegar ákvörðunin var tekin þá var hún rædd á Alþingi, það var bara þannig. Og hv. þingmaður getur farið í þingtíðindin og séð þann samhljóm sem var í umræðunni; hún segist hafa fylgst með henni, sennilega þá í sjónvarpi eða útvarpi. Það breytir engu um það að hún hefur engan sögulegan rétt til að koma hingað og halda ræðu um það að forustumenn Íslands hafi att Íslandi út í hin ýmsu stríð og hún telur þau upp, meðal annars Líbíu.

Nú er það svo að ég er alls ekki að firra mig neinni ábyrgð eða slíku. Ég horfðist í augu við mína ábyrgð en ég gerði það sem var lýðræðislegt, ég ræddi við þingið. Það var einfaldlega þannig að það var ekki einn einasti kjaftur hér í þinginu sem var með aðrar skoðanir á þeim tíma og ákvörðun var tekin á tiltölulega stuttum tíma.

Ég ítreka það að atburðarásin sem síðar varð var með þeim hætti að til dæmis Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ýmsum fleirum óaði við, sennilega réttilega. Það breytir engu. Þingið var spurt, það var talað við þingið og ráðherrann hafði enga ástæðu til að ætla að það væru einhverjir hér í þinginu á þeim tíma sem sæju mikla meinbugi á þeirri afstöðu sem síðar varð niðurstaðan. Þannig er það bara.