144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[19:16]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mikilvæga þingmál. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir mjög góða ræðu og fyrir mjög góðan og heiðarlegan málflutning.

Við hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson vil ég segja: Ríkisstjórn hefur verið kölluð saman til fundar af minna tilefni en þessu. Hann segir að það hafi ekki verið eins og hann orðaði það „kjaftur á móti“. Ég gæti talið upp nokkra kjafta sem höfðu um þetta efasemdir og voru þessu ráðslagi andvígir.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni, þar á meðal til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það er mjög gagnlegt að fá strax svona sjónarmið fram. Ég hefði kosið að fulltrúar allra flokka hefðu komið og lýst sjónarmiðum sínum þó að afstaða manna til þessa máls eigi eftir að ganga að einhverju leyti þvert á flokka.

Ég vil ljúka orðum mínum með því að óska eftir því að málið fari til utanríkismálanefndar til afgreiðslu þar.