144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nokkrir þingmenn stjórnarliðsins hafa síðustu daga lýst áhyggjum af stöðu samkeppnismála í mjólkuriðnaðinum. Þetta kemur mjög á óvart, sérstaklega vegna þess að það eru ekki nema þrjú ár síðan hér á Alþingi Íslendinga var flutt tillaga um að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Þá tillögu felldu þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ásamt fleiri þingmönnum með 30 atkvæðum í þessum sal 14. apríl 2011. Hver sem vill getur flett upp þeirri atkvæðagreiðslu. Ég hvet fjölmiðla til að gera það. Það voru aðeins þingmenn Samfylkingarinnar sem studdu það að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum í þeirri atkvæðagreiðslu — alveg eins og þegar þessir sömu flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, knúðu hér í gegn undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum árið 2004, þá var það líka þingflokkur Samfylkingarinnar sem stóð gegn þeirri breytingu og varaði við henni og þeim afleiðingum sem hún gæti haft, með tilstyrk fyrrverandi hv. þm. Gunnars Örlygssonar einnig.

Þar sem þessi áhugi er kominn og hér eru ýmsir nýir þingmenn stjórnarliðsins vil ég lýsa því yfir að ég mun nú endurflytja tillögu mína frá 2011 um að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Ég býð öllum þeim þingmönnum stjórnarflokkanna sem bera samkeppni á neytendamarkaði fyrir brjósti að vera með í þeim tillöguflutningi, standa að þeim tillöguflutningi og lýsi mig opinn til að gera hverjar þær breytingar sem þarf að gera á tillögunni til að ná megi sem breiðastri samstöðu um hana og læt mér í léttu rúmi liggja hver væri fyrstur flutningsmanna að þeirri tillögu. Ég hvet þá þingmenn sem hafa verið hér með yfirlýsingar síðustu daga til að gera eitthvað raunverulega í málinu því það er Alþingi sem (Forseti hringir.) veitti þessa undanþágu og það er Alþingi sem getur afturkallað hana. (BirgJ: Heyr, heyr!)