144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær átti ég í orðaskiptum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson í umræðum um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu þar sem aðdragandi Líbíustríðsins barst í tal. Þar sakaði hv. þingmaður mig um að koma eins og hvítskúraður engill inn í umræðuna. Hann sagði að ekki mætti falsa söguna og ég hefði ekki sögulegan rétt til að segja að forustumenn Íslands hefðu att Íslandi út í hin ýmsu stríð; og hvatti mig að lokum til að lesa þingtíðindi, þingið hefði verið spurt og talað hefði verið við það.

Ég var nokkuð slegin út af laginu við þessar ásakanir en ákvað að taka hv. þingmann á orðinu og lagðist í lestur í gærkvöldi. Rifjum upp nokkrar lykildagsetningar. Þann 24. mars 2011 ákvað NATO að taka yfir hernaðaraðgerðir Frakka og Breta í Líbíu. Þær höfðu hafist 19. mars, sama dag og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti almennt orðaða ályktun um loftferðabann yfir landinu. Það var hins vegar þann 17. mars sem efnt var til utandagskrárumræðu að ósk núverandi hæstv. utanríkisráðherra um hernað Gaddafis gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins þar sem töluðu fulltrúar allra flokka, meðal annars um hið svokallaða loftferðarbann. Í þeirri umræðu lýsti þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sérstaklega þeirri skoðun sinni að Atlantshafsbandalagið mundi að öllum líkindum ekki vilja blanda sér í átökin að því marki sem Bandaríkin vildu.

Það er því alger eftiráskýring að með þessari utandagskrárumræðu, að beiðni stjórnarandstöðuþingmanns, hafi utanríkisráðherra verið að spyrja þingið um afstöðu þess til ákvörðunar NATO viku síðar. Eftir að hafa lagst í lestur á þingræðum vil ég því segja: (Forseti hringir.) Það var ekkert í ræðu minni hér í gær sem ekki var sögulega rétt, ekkert.