144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni í dag stöðu framhaldsskólans í nýju fjárlagafrumvarpi. Þar tekur stjórn Kennarasambandsins undir með okkur í minni hluta þingsins sem höfum talað, en boðaður eru áframhaldandi niðurskurður á sama tíma og stjórnvöld geti aflað sér tekna til að standa betur undir þessum rekstri. Það kom fram í gær að nemendafækkun er 5% eða um 916 nemendur, þ.e. heill skóli með manni og mús og það skiptir máli þegar við erum að ræða mál framhaldsskólans.

Það er meðal annars aðgangsstýring. 25 ára og eldri eiga ekki lengur greiðan aðgang. Það er algjör stefnubreyting hvað varðar sveigjanleika í námstíma og námsframboði og aðgengi til náms. Það er ekkert fjármagn til stuðnings nemendum í brottfallshættu, nemendum með sértæka námserfiðleika eða í aukna námsráðgjöf og raunfærnimat, samfara þó þeim miklu breytingum sem hér er verið að leggja til, hvað þá forvarnir.

Það er þannig að þessi fjárlög eru landsbyggðarfjandsamleg, því að skólar á landsbyggðinni bera sérstaklega skarðan hlut frá borði þegar bornar eru saman tölurnar í fjárlagafrumvarpinu. Niðurskurður á miðju sumri og svo áframhaldandi niðurskurður núna. Það skiptir þessa litlu skóla líka miklu meira máli því fimm nemendur geta skipt sköpum í því hvort áfangi er kenndur eður ei.

Það á líka að skera niður í fjarnámi undir því yfirskyni að auka skilvirkni. Það á að vísa þessum nemendum og nemendum eldri en 25 ára í símenntunarmiðstöðvar eða í háskólabrú, en við skulum átta okkur á því að 60% nemenda í starfsnámi eru í hópi eldri nemenda.

Vinnustaðanámssjóðurinn er skorinn hraustlega niður en hann hafði það hlutverk að mæta kostnaði við starfsnám á vinnustað. Hvað ætlum við að gera við nemana sem eru að fara í (Forseti hringir.) starfsnám? Þetta er ekki aðeins aukinn kostnaður fyrir landsbyggðarfólk, það er líka verið að ræna fólk tækifæri til náms í heimabyggð. Þetta þýðir ekkert annað en það (Forseti hringir.) að hægt og sígandi mun molna undan litlu skólunum á landsbyggðinni og þeir hætta að vera til.