144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að taka undir með félaga mínum, hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, um þá háttsemi sem Landsbanki Íslands sýnir okkur Suðurnesjamönnum og starfsfólki þar. Hann virðist ekki alveg gera sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð þar sem hann kom inn í þetta, eins og áður er sagt, með því að taka yfir sparisjóðinn, fór þar um héruð, fundaði með öllum sveitarstjórnum, skipulagsnefndum og öðru og lofaði þar öllu fögru. Hann ætlaði að vera duglegur að taka við hlutverki sparisjóðsins, styðja við íþróttahreyfinguna, lána til atvinnuuppbyggingar og halda úti starfsemi á staðnum.

Hefði ekki verið nær, ef það var alltaf ætlunin að standa ekki við þetta, að segja það bara strax í staðinn fyrir að byrja að brytja niður, lána ekki fyrirtækjum, fækka útibúunum smátt og smátt? Þegar þeir fækka útibúunum lofa þeir einhverjum þjónustuheimsóknum sem áttu að duga í nokkra mánuði og draga þær svo til baka. Nú er sú staða uppi að bæði íbúar og starfsfólk þessa banka eru í algjörri óvissu um hvað verður í framtíðinni.

Ég hélt að ég þyrfti ekki að koma hér og gera þetta að umtalsefni í þessum ræðustól af því að hingað til hafa verið nægir þingmenn til að hafa skoðun á því ef verið er að leggja niður störf, alla vega á höfuðborgarsvæðinu, og líka þegar bankarnir gera eitthvað ekki alveg rétt samfélagslega. En ég hef bara ekki heyrt einn einasta mann minnast á þetta. Það er alveg furðulegt að þurfa að gera það hér núna.

En Landsbankanum hefði verið í lófa lagið, sem kvartar endalaust undan húsnæðisskorti sínum og búinn að kaupa hér lóð fyrir 1 milljarð, eða hyggst gera það, að nýta það húsnæði sem hann hefur á Suðurnesjunum og færa þá þessa bakvinnslu alfarið þangað ef þeir vildu sameina hana aftur.

Ég hvet okkur bara til þess að hafa augun alltaf opin, hvort sem verið er að flytja störf héðan eða þaðan.