144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þingfundurinn fer hratt og vel af stað og það eru mörg mikilvæg og verðug viðfangsefni sem við þingmenn munum takast á við í þessum sal og í nefndum þingsins á næstu missirum. Eitt af þeim verkefnum er að sjálfsögðu fjárlögin og þar af leiðandi tekjuhlið fjárlaga. Við ræddum hér í liðinni viku frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og brottfall laga um vörugjald. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál og sýni okkur þann vilja núverandi ríkisstjórnar að einfalda skattkerfið sem er gríðarlega mikilvægt viðfangsefni. Þetta mál sýnir okkur fyrsta skrefið í þá átt að einfalda skattkerfið sem mun hafa í för með sér skilvirkara skattkerfi sem mun skila tekjum ríkissjóðs á ábyrgari og vonandi skilvirkari hátt inn til okkar.

Niðurstöður rannsókna OECD sýna okkur að virkni virðisaukaskatts sem tekjujöfnunartækis er ekki sú sem ráða mátti hér á umræðunni í liðinni viku. Þannig eru bara niðurstöður OECD.

Við sjáum líka niðurstöður skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lá til grundvallar vinnu fjármálaráðuneytisins þegar þessi frumvarpssmíð átti sér stað sem sýnir okkur fram á það sama. Það er því gríðarlega mikilvægt að við þingmenn horfum aðeins upp úr okkar skotgröfum, horfum aðeins fram hjá því í hvaða liði við erum og reynum að átta okkur á því að við viljum hafa sterkt skattkerfi sem skilar tilætluðum árangri á öruggan hátt. Við eigum að einbeita okkur að því að nálgast umræðuna á þá vegu í staðinn fyrir að vera með upphrópanir í þá átt að engu megi breyta hvað varðar virðisaukaskattskerfið.