144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað hér um uppsagnir á starfsfólki á Suðurnesjum sem ég tek undir að sé mjög alvarlegt mál. Í því sambandi vil ég vekja athygli á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þar stendur: „Ríkið fái auknar heimildir til að segja upp starfsfólki.“ Er þetta ekki svolítið á skjön við þá umræðu?

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson boðar það að leggja eigi fram breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þar sem veikja eigi réttindi opinberra starfsmanna í landinu svo að auðveldara sé að reka þá. Mér finnst að það hafi ekkert verið mjög erfitt fyrir þessa ríkisstjórn og fyrir þessa flokka að hagræða, fara fram með hagræðingarkröfu. Í kjölfar þess hafa til dæmis verið uppsagnir hjá Ríkisútvarpinu og fleiri stöðum í þjóðfélaginu, í heilbrigðiskerfinu og annars staðar sem búast má við því og líka í framhaldsskólunum, í menntakerfinu, í velferðarkerfinu öllu.

Ég lít það mjög alvarlegum augum að ráðast eigi á réttindi opinberra starfsmanna, skerða réttindi þeirra svo að auðveldara verði að segja þeim upp. Það er ekkert vandamál að segja upp opinberum starfsmönnum ef menn kjósa það. Það hefur sýnt sig. Opinberir starfsmenn hafa tekið á sig miklar launalækkanir og niðurskurð eftir hrunið sem var engum ánægja. Nú ætti frekar að spýta í lófana og leggja meira fé í almannaþjónustu, því að almannaþjónusta er til þess að auka jöfnuð í þessu landi.

Það sem þarna liggur að baki, þessi ofsi í garð opinberra starfsmanna, er með ólíkindum. Hv. þm. Vigdís (Forseti hringir.) Hauksdóttir hefur tekið undir þetta og talar um óþarfar stofnanir og óþörf störf. Mér finnst rétt að hv. þingmaður geri okkur grein fyrir því (Forseti hringir.) um hvað hún ræðir. Hún er þingmaður og hún skuldar kjósendum og öllum landsmönnum það að (Forseti hringir.) segja um hvað hún er að tala í þeim efnum.