144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að hrósa hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framgöngu hennar hér undir þessum lið. Ég var hér í húsinu í gær þegar ómaklega var að henni vegið og harkalega. Þannig að ég held, virðulegur forseti, að margir mættu taka sér verklag hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur til fyrirmyndar og skoða betur hvernig við vinnum og kannski með hvaða hætti við svörum þeim athugasemdum sem að okkur er beint. Við ættum öll að skoða á hvern hátt við beinum athugasemdum til fólks og segjum það fara með staðlausa stafi. Þetta er jú ræðustóll Alþingis Íslendinga.

Að öðru, virðulegur forseti. Það hlýtur að mega ræða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það hlýtur að mega ræða greiðslur opinberra starfsmanna í þá lífeyrissjóði sem þeir hafa í dag. Það hlýtur að mega ræða samanburð opinberra starfsmanna, launakjör, lífeyriskjör, við það sem gerist á hinum almenna markaði. Það hefur lengi vel verið rætt að búa eigi til eitt lífeyrissjóðskerfi fyrir alla landsmenn, það vita allir að það mun kosta ríkið fjármuni vegna þess að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru með allt öðrum hætti en annarra á markaði. Þess vegna hlýtur líka að mega ræða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna samhliða því að við ræðum réttindi fólks á hinum almenna vinnumarkaði.

Virðulegur forseti. Það að vilja skoða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og lög (Forseti hringir.) er ekki árás á opinbera starfsmenn.