144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

orðaskipti þingmanna um störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert út á fundarstjórn forseta að setja en vil þó beina þeim vinsamlegu tilmælum til hans að minna þá þingmenn á sem vita það ekki, þó að það hafi verið í gangi hér frá því að þessi liður var tekinn upp, að ef einhver vill eiga orðaskipti við annan hv. þingmann þá biður hann um það.

Ef til dæmis hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir vill eiga orðaskipti við mig er mjög auðvelt að senda mér tölvupóst um það. En að koma hér og fara með rangfærslur um það sem ég eða einhver annar þingmaður hefur verið að segja og að við getum ekki svarað fyrir okkur er nokkuð sem ég vona að við sjáum ekki mikið af.

Ég treysti því að ef einhver þingmaður, af einhverjum óskiljanlegum orsökum, veit ekki af þessu komi virðulegur forseti þeim skilaboðum til viðkomandi þingmanns um að það sé mjög einfalt að eiga orðaskipti, ef menn hafi áhuga á því, við viðkomandi þingmenn undir þessum lið, en þá þurfi að láta þá vita.