144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann viti ástæður þess hvers vegna þarf að flýta þessu frumvarpi svona í gegnum þingið. Það kemur fram 11. september, fyrir tæpum tveimur vikum, og það virðist ekki vera fyrr en núna í þessari viku, fyrir nokkrum dögum, að það komi kall um að það þurfi að klára málið hið snarasta, líklega fyrir lok þessarar viku af því að það er kjördæmavika í næstu viku. Kannski hv. þingmaður geti uppfrætt okkur um það.

Það virðist þurfa að klára þetta mál hið snarasta. Þær upplýsingar hafa komið fram fyrir nokkrum dögum. Annars mun einhver fjárhagslegur baggi lenda á ríkissjóði eða munur á réttindum aukast sem kosti ríkið töluverða fjármuni. Getur hv. þingmaður uppfrætt okkur um þetta?