144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að halda því fram að þetta sé gott mál, þótt margt gott komi frá ríkisstjórninni, af þeim ástæðum sem hv. þm. Pétur Blöndal fór hér yfir. Það er auðvitað verið að fresta vanda eins og menn hafa gert samviskusamlega. Helstu rökin eru þau, og það er örugglega alveg rétt, að ef menn framfylgja núverandi lögum muni það hafa slæm áhrif á þá vinnu sem er í gangi, um að samræma lífeyrisréttindi á milli opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almennum markaði.

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hv. þm. Vilhjálm Bjarnason hvort eitthvað sé að gerast á þeim vettvangi, hvort nefndin hafi fengið einhverjar upplýsingar um það því að það er kjarni máls.

Fyrir þá sem ekki þekkja til er málið með einföldum hætti þannig að munurinn á almenna kerfinu og opinbera kerfinu — af því að það var rætt í umræðum um störf þingsins og ráðist á mig og hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur án þess að við gætum svarað fyrir okkur — liggur að hluta til í kjörum opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almenna markaðnum. Annars vegar greiða þeir sem eru á almenna markaðnum í sinn lífeyrissjóð og vinnuveitendur þeirra. Ef fjármunir tapast og menn standa ekki undir tryggingaflæði skuldbindingar eru lífeyrisréttindi viðkomandi sjóðfélaga skert. Það er almenna reglan hjá almennu lífeyrissjóðunum. Hjá ríkisstarfsmönnum er það hins vegar þannig að þetta er allt saman á ábyrgð skattgreiðenda. Það skiptir í rauninni ekki máli hvernig gengur með fjárfestingu í opinberu lífeyrissjóðunum því að ríkisstarfsmenn og opinberir starfsmenn, þar með taldir hv. þingmenn því að við erum í sama kerfi og opinberir starfsmenn, ekki öðruvísi kerfi eins og var áður, fá lífeyrinn með ríkisábyrgð og ábyrgð skattgreiðenda.

Með því að við göngum fram með þessum hætti, og ég set mikinn fyrirvara við það, gerist ekkert annað en að við frestum bara vandanum. Það er það sem við erum að gera. Vandinn fer ekki neitt. Áfallnar lífeyrisskuldbindingar, áunnin réttindi fólksins fara ekki neitt. Við getum ekkert breytt þeim; eftir því sem ég best veit er það stjórnarskrárbundinn réttur. Það hefur hins vegar verið mikil krafa um það og umræða í þjóðfélaginu að þetta verði samræmt þannig að þetta verði svipað hjá bæði opinberum starfsmönnum og þeim sem eru á almennum vinnumarkaði. Það yrði þá gert til framtíðar. Þetta snýst ekki um að skerða rétt þeirra sem hafa áunnið sér rétt.

Til að setja þetta í eitthvert samhengi, virðulegi forseti, þá eru skuldir ríkissjóðs um 1.400 milljarðar. Inni í þeirri tölu eru ekki lífeyrisskuldbindingar. Ástæðan fyrir því að lífeyrisskuldbindingarnar eru ekki þar inni, rétt eins og þegar við skoðum skuldir ríkja OECD þá sjáum við aldrei lífeyrisskuldbindingarnar, ég hef kannað það, er til komin út af því að helstu forusturíki ESB, sérstaklega Frakkland, vilja alls ekki að þetta komi fram í tölum OECD. Við munum þurfa að ræða þetta þegar við tökum fyrir frumvarp um opinber fjármál, þ.e. hvort við viljum sýna þetta, sem er auðvitað rétt því að þetta eru skuldir hins opinbera. Ef við tækjum þetta með í reikninginn yrðum við væntanlega eina ríkið innan OECD sem mundi gera það.

Hjá okkur eru þetta engar smáupphæðir. Lífeyrisskuldbindingar B-deildar í árslok 2012 voru 388 milljarðar. Ef ekki hefði verið farið í niðurgreiðslu á þessum skuldum, þar sem greitt var inn á þetta á árunum 1999–2008, væri skuldbindingin 600 milljarðar — ekki 388 heldur 600 milljarðar. Ég man nokkuð vel umræðuna í tengslum við þetta. Ég man ekki til þess að þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, hafi fengið miklar þakkir fyrir að ganga í þetta verk. Þvert á móti voru kröfur um allt annað. Það er ágætt að hafa það í huga. Sem betur fer höfðum við aðila sem voru svo forsjálir að taka slaginn og greiða inn á þessar lífeyrisskuldbindingar sem gerir að verkum að það verkefni sem við erum með núna og verkefni komandi kynslóða verður miklu auðveldara. Enginn fékk pólitískt prik fyrir að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar. Maður getur svo sem flett upp í þingræðum til að skoða það.

A-deildin, þar sem átti aldrei að safna skuld, er komin í 63 milljarða skuld, eins og hv. þm. Pétur Blöndal vísaði til. Greiðsluþrot B-deildarinnar og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga verður 2027. Þá þarf ríkissjóður á hverju ári að greiða 20 þús. milljónir, 20 milljarða, á ári í tíu ár. Þetta er ekkert smámál. 20 milljarðar eru helmingurinn af rekstrarkostnaði Landspítalans á ári. Þetta eru engar smáupphæðir.

Svo ég tali um góðu fréttirnar. Við Íslendingar eigum þó sjóði, við eigum þó lífeyrissjóði. Það er ekki gallalaust þetta kerfi okkar, svo mikið er víst og hægt að halda langar ræður um það, en við erum held ég eitt af sjö ríkjum 34 ríkja OECD sem erum með einhverja sjóðsöfnun. Ríkin sem eru með sjóðsöfnun eru Ástralía, Ísland, Finnland, Holland, Sviss, Bretland og Bandaríkin. Aðrar þjóðir eru í mjög snúinni stöðu. Lífeyrissjóðseignir okkar eru til dæmis 128,7% af landsframleiðslu en Frakkland er aftur á móti með 0,3%. Við erum að eldast og aldurssamsetningin er að breytast mjög mikið en í Frakklandi er hlutfall eldri borgara miklu stærra. Frakkar ætla sér að keyra þetta allt í gegnum gegnumstreymiskerfi. Meira að segja Þýskaland, sem er öxullinn í efnahagsmálum ESB, er með 5,5% í sjóðum af vergri landsframleiðslu þegar við erum með tæplega 130%. Ég hef trú á því að hinn almenni Þjóðverji sé duglegri að spara en flestir, ég veit ekki með Frakka en það sem ég veit er að þetta er gríðarlega stórt vandamál. Svo eru Portúgal og Spánn og aðrar þjóðir sem eru að vísu með meira en þessar þjóðir prósentulega, milli 7% og 8%. Belgía er með 4,2%. Grikkland er ekki með neitt, það kemur kannski ekki á óvart. Ítalía er með 4,9%.

Í stuttu máli, virðulegi forseti, eru rökin fyrir þessu eru mjög skýr, þau kom fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni. Það er í rauninni mjög mikilvægt að menn nái einhverri niðurstöðu um að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að réttindaávinnsla verði jafnari og kerfi opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almenna vinnumarkaðnum svipaðri. Menn telja, og það er örugglega rétt mat, að ef við breytum ekki lögunum þá hafi það slæm áhrif á gang þeirra viðræðna. En, virðulegi forseti, þær viðræður voru ekki að byrja í gær. Ég ætla ekki að halda því fram að ég muni eftir þeim frá blautu barnsbeini, það er ekki þannig, en viðræður hafa staðið í ansi langan tíma.

Virðulegi forseti. Ég vil þess vegna kanna það hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni, sem flutti mál sitt hérna ágætlega eins og hans er von og vísa, hvaða upplýsingar hv. nefnd fékk um stöðuna á þessu máli. Okkur liggur á. Það er ekki eftir neinu að bíða því að núverandi kerfi er skuldasöfnunarkerfi; við erum að safna skuldum fyrir skattgreiðendur í landinu. Við erum að tala um alvöruupphæðir. Stundum tökum við mikla umræðu um mjög lágar upphæðir, þ.e. hlutfallslega, þótt þær skipti líka máli en hér erum við að tala um alvöruupphæðir. Ef við greiðum ekki niður hvort sem það eru lífeyrisskuldbindingar, við getum kallað það lífeyrisskuldir, eða aðrar skuldir ríkisins þá þýðir það bara eitt, þ.e. börnin okkar og barnabörnin og næstu kynslóðir verða fyrir verulegri lífskjaraskerðingu. Núna samsvara vaxtagjöld ríkissjóðs, inni í þeirri upphæð eru ekki lífeyrisskuldbindingar, þær eru þar fyrir utan, tvöföldum rekstrarkostnaði Landspítalans á hverju einasta ári. Þetta er þriðji stærsti útgjaldapóstur ríkisins. Við verðum að snúa við og fara að greiða niður skuldir, almennar skuldir ríkisins sem og lífeyrisskuldbindingarnar. Við erum ekki að gera það með þessu frumvarpi, en rökin eru að það séu meiri hagsmunir undir.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Vilhjálm Bjarnason: Hvaða upplýsingar fengu nefndarmenn? Hvernig stendur það mál? Hvenær sjáum við niðurstöðu í því stóra máli?