144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að ætla að ganga eftir því að upplýsingar komi á morgun. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að frá þinginu komi skýrt fram að ef við göngum frá þessu, sem við munum væntanlega gera, þá sé það vegna þess að menn séu að liðka fyrir því að niðurstaða fáist í málið sem allra fyrst.

Hér talaði hv. þm. Pétur Blöndal sem ég veit að hefur áhuga á þessu máli og ég tala nú ekki fyrir hönd annarra en mín sjálfs en ég held að mér sé óhætt að segja að svipuð sjónarmið komu fram í ræðum okkar. Það er mjög mikilvægt að það komi skýr skilaboð frá þinginu um að við viljum fá niðurstöðu í þessi mál. Það er ekki sjálfgefið að koma reglulega og breyta tryggingafræðilegum forsendum bara vegna þess að það sem lagt var upp með stenst ekki lengur. Það var aldrei hugmyndin að safna skuldum í A-deild. Við þekktum vandamál B-deildarinnar, það er áratugavandi sem var þekktur, en A-deildin átti aldrei að safna skuldum. Hún hefur núna gert það og þær eru 63 þús. milljónir. Það er mjög mikið af peningum. Þessu verður að linna.

Ég lýsi yfir ánægju með viðbrögð hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar við þeirri ósk minni að kalla eftir þessum upplýsingum og hvet hann til að upplýsa þing og þjóð um stöðu mála á morgun og hvet hann og alla aðra þingmenn að leggjast á árar til að ýta á eftir því að þessu máli verði lokið.