144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi nú ekki alveg ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Hv. þingmaður veit nú að við höfum fengið önnur eins vilyrði á þingi í tengslum við þessi mál. Ég tel það afskaplega mikilvægt að við leggjum lóð okkar á vogarskálarnar og gefum skýrt til kynna að við séum að fylgjast með málinu og viljum sjá fyrir endann á því. Við höfum breytt lögunum ár eftir ár til að ýta vandanum á undan okkur en ég held að aldrei nokkurn tíma hafi verið sagt að ekki væri verið að loka málinu. Hv. þingmaður leiðréttir mig þá ef einhvern tíma hefur komið fram breyting og sagt: Við ætlum bara ekkert að gera það, því að það hefur legið fyrir hvað átti að gera samkvæmt lögunum. Það vita allir hver hugmyndin er. Hugmyndin er sú að ef endar ná ekki saman þá hækki menn iðgjaldið. Það er það sem liggur í laganna bókstaf og það er það sem við erum í rauninni að koma í veg fyrir með þessu og ekki í fyrsta skiptið.

Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður tekur því illa að við komum hingað upp og lýsum yfir áhyggjum af málinu og lýsum yfir skoðunum okkar á því að við viljum sjá fyrir endann á því vegna þess að þetta er búið að gerast svo oft. En ég ætla ekki að fara í karp eða kenna einum eða neinum um. Maður gæti auðveldlega fallið í þá gryfju eins og hv. þingmaður gerði hér. Ég vonast til að við séum öll sammála um þetta mál. En það er mikilvægt að þeir aðilar sem að þessu máli koma — því að það eru ekki bara þingmenn og það er ekki bara framkvæmdarvaldið, það eru svo sannarlega fleiri aðilar, í það minnsta launþegahreyfingar og jafnvel atvinnurekendur líka — viti að verið er að fylgjast með málinu. Ég hélt að við værum öll sammála um það og þar með talið hv. þm. Árni Páll Árnason. Ég vil trúa því þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi ákveðið að pirrast aðeins yfir einhverju sem hér fór fram, að hann sé með okkur í liði hvað þetta varðar.