144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

23. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun viðskiptastefnu Íslands. Meðflutningsmenn mínir eru allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Við fluttum þetta mál fyrst á 141. löggjafarþingi og svo 143. löggjafarþingi og gerum aftur núna. Ég er sannfærður um að það fari í gegn vegna þess að þetta er mjög gott mál. Stundum vinna menn í hlutum og ekkert gerist, en þrátt fyrir að tillagan hafi ekki farið í gegn áður sjáum við samt nú að einn angi þessa máls, sem hefur það eitt að markmiði að bæta stöðu neytenda og verslunarinnar, mun fara í gegn ef fjárlagafrumvarpið eins og það er nú nær fram að ganga.

Hugmyndin á bak við þessa þingsályktunartillögu er einfaldlega sú að ráðherra móti viðskiptastefnu sem hafi það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri og lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur. Eitt af því sem þar skiptir miklu máli eru vörugjöld. Það er þrennt sem hér er um að ræða, vörugjöld, skattamálin og tollar. Ég vil þess vegna lesa örstutta grein sem er skrifuð af Auði Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Lifa ehf., sem ber yfirskriftina „Vörugjöld og vondir kaupmenn“. Hún segir hér, með leyfi forseta:

„Ég heiti Auður og ég er kaupmaður. Ég hef verið kaupmaður í tæp tíu ár og reyni að skammast mín ekkert sérstaklega fyrir það.

Það er gaman að versla og stunda viðskipti og ég legg mig fram um að veita góða þjónustu og eiga ánægjuleg samskipti við viðskiptavini mína jafnt sem birgja með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Það er nefnilega ekkert vit í viðskiptum sem ekki innifela ágóða fyrir alla hlutaðeigandi. Ef hallar óeðlilega á einhvern aðila er ljóst að viðskiptunum verður ekki haldið áfram lengur en það tekur þann sem ber skarðan hlut frá borði að finna hagkvæmari valkost.

Þess vegna er mér fyrirmunað að skilja hversu vinsælt það virðist á Íslandi að láta líkt og við lifum enn á tímum Jóns Hreggviðssonar þegar kaupmenn höfðu einkaleyfi á verslun á sínu svæði. Ef marka má orðræðuna mætti trúa að fátt hafi breyst síðan þá. Við kaupmenn mökum krókinn og lifum hátt á svita og blóði íslenskrar alþýðu og núna stefnum við víst á að stinga niðurfelldum vörugjöldum og lækkun á virðisaukaskatti beint í gulli hlaðnar pyngjurnar, eða hvað? Það hefur verið baráttumál íslenskrar verslunar til fjölda ára að afnema vörugjöld sem eru ógegnsæ, skekkja samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu samhengi og eru furðulega samræmislaus, samanber þá staðreynd að láréttar brauðristar bera vörugjöld en ekki lóðréttar. Ég held að kaupmenn hafi einmitt fagnað manna hæst þegar ríkisstjórnin kynnti áform sín um afnám vörugjalda og hlakki til að lækka verð. Við erum nefnilega fyrir löngu búin að átta okkur á því að íslenskir neytendur eru langt í frá óupplýstir og fyrir löngu hættir að láta bjóða sér maðkað mjöl.“

Lokaorðin eru þessi, með leyfi forseta:

„Hvað sem því líður þá legg ég til að við hættum að láta eins og við búum enn á nítjándu öldinni, Ísland sé einangrað og að hér gildi önnur samkeppnislögmál en annars staðar í hinum frjálsa heimi. Góðar stundir og gleðilega vörugjaldalausa verslun.“

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta góð grein hjá þessum kaupmanni og draga ágætlega fram andann í þingsályktunartillögu okkar. Þegar við tölum um viðskiptastefnu eru nokkrir hlutir sem við getum rætt. Eitt er það sem enginn ræðir, nokkuð sem ég hef tekið upp nokkrum sinnum en fæ engin viðbrögð við, ekki nokkur einustu, er hin augljósa mismunun sem stafar af því að ríkið beitir sér sérstaklega í smásöluverslun hér á landi. Við erum með sérverslun fyrir útvalda sem kaupa vörur á allt öðru verði en tekjulægri hópar þjóðfélagsins geta. Hér er ég að vísa í fríverslunina. Ég hef ferðast víða en hef hvergi séð verslun eins og er í Keflavík, komuverslun. Ég hef séð komuverslanir sem eru litlar, augljóslega til að menn kaupi gjafir eða eitthvað slíkt, en Fríhöfnin hjá okkur er risastór, rekin af ríkinu og reyndar rekin með tapi. Þar kaupir fólk vörur á allt öðru verði en í verslunum landsins vegna þess að þar eru engin gjöld, m.a. við þingmenn sem þurfum flestir að ferðast vegna alþjóðasamstarfs. Þetta finnst fólki bara vera hið eðlilegasta mál.

Ef maður fer á heimasíðu Fríhafnarinnar og skoðar vöruúrvalið, velur vörur, þá kemur upptalning. Það er áfengi, snyrtivörur, sælgæti, tóbak, leikföng, ferðavörur, heilsuvörur, það er eitthvað sem heitir Duty Free Fashion, ég veit ekki hvað það er, vörugjaldalaus og tollalaus tíska, annar fatnaður og svo er sérliður sem er uppáhaldsliðurinn minn, Victoria´s Secret, og síðan íslenskar vörur. Þetta er í smásöluverslun ríkisins. Þetta þykir öllum hið eðlilegasta mál.

Ég man að mér þótti mjög óeðlilegt þegar ég las um hina svokölluðu nómenklatúru í Sovétríkjunum í gamla daga sem gat keypt allt í dollarabúðum en almúginn mátti kaupa í búðum með lítið og lélegt vöruúrval og standa í biðröðum. Þetta er auðvitað ekki sambærilegt, það er ekki þannig að ekki geti allir farið inn í Fríhöfnina, en þetta er í besta falli svolítið sérkennilegt og þess virði að ræða.

Við erum með aðra smásöluverslun sem er ÁTVR. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur lagt fram sérstakt frumvarp út af því sem ég vona að fái góða afgreiðslu. Og svo sannarlega beitum við okkur með öðrum hætti í einni tegundinni af verslun sem hefur verið nokkuð í umræðu núna sem er landbúnaðarverslun. Við erum ekki svo sem eina þjóðin í heiminum sem gerir það. Það gera flestar vestrænar þjóðir það. Þær hafa ákveðna vernd fyrir innlendar landbúnaðarafurðir. En ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að fara yfir þann málaflokk sérstaklega, ekki bara út af þessum nýja úrskurði hjá Samkeppniseftirlitinu en það er hins vegar ágætispunktur til að byrja á.

Það segir sig sjálft að þegar það verður þannig, t.d. í mjólkuriðnaðinum, að einn stór aðili virðist vera með langstærstan hluta markaðarins, þá eru menn í rauninni að biðja um að fá aðhald erlendis frá með samkeppni, það segir sig sjálft. Það er alveg sama um hvaða verslun er að ræða eða framleiðslu, það verða allir að hafa einhverja samkeppni annars sofna menn á verðinum. Ég er ekki einn af þeim sem hallmæla bændastéttinni, það er langur vegur frá því. Ég borða íslenskar landbúnaðarvörur af því að ég veit hvaðan þær koma og ég veit að þær eru góðar. Ég held að almenn þróun í heiminum verði sú að við viljum fá að vita hvaðan maturinn okkar kemur.

Ég hef ekki áhyggjur af hefðbundnum íslenskum landbúnaði að því gefnu að við veitum nokkuð meira frelsi og sveigjanleika þar. En landbúnaðarkerfið okkar gengur í rauninni ekki út á það að vernda hefðbundinn íslenska landbúnað. Og svo ég vitni nú í enska tungu — og nú er komið fordæmi fyrir því hér, herra forseti. Ég var nú einu sinni skammaður fyrir það af virðulegum forseta að segja Daily Telegraph, en ég kunni bara ekki að þýða það, en hv. þm. Jón Þór Ólafsson fór hér með langan enskan texta. En ég hlýt að sleppa með að segja frá því að í enska orðinu yfir landbúnað, „agriculture“ er „culture“, þ.e. þetta er menningarhluti og flestar þær þjóðir nota þau rök þegar þau vernda sinn landbúnað, hvort sem það eru Japanir sem eru með 800% tolla á hrísgrjónum eða Frakkar sem vilja halda sínum landbúnaði. Þeir vilja halda í hluta af sinni menningu. Hefðbundinn landbúnaður er svo sannarlega partur af okkar menningu. Það sama verður hins vegar ekki sagt um þann landbúnað sem við verndum hvað mest.

Ef við tökum landbúnaðinn á Íslandi og skoðum hvað það er sem við veitum mesta vernd, þá er það sérstaklega kjúklingarækt og eggjaframleiðsla. Það fær langmestu verndina. Reyndar er það þannig að lambakjötið, þetta frábæra kjöt, er ódýrara en víðast hvar annars staðar, í það minnsta ef við miðum við heimsmarkaðsverð. Verðið hér er um 70% af heimsmarkaðsverði ef við gefum okkur að heimsmarkaðsverðið sé 100%. Verð á kjúklingi er hins vegar 250% af heimsmarkaðsverði og mun dýrari en annars staðar.

Ég held að það sé sjónarmið margra að ef eitthvað verði slakað á varðandi innflutning á þessum muni það smitast yfir á aðrar. En ég held að við eigum að líta á þetta í öðru samhengi. Þetta snýst ekki bara um samkeppni um verð, þetta snýst líka um samkeppni og gæði. Við eigum að uppfræða neytendur um hvað við erum með góð matvæli hér á landi. Við notum mun minna af tilbúnum efnum eins og sýklalyfjum og öðru en þau lönd sem við berum okkur saman við. Ef ég man rétt þegar kemur að kjötinu þá höfum við og Norðmenn algera sérstöðu þar. Við erum stundum ekki meðvituð um það hversu gæðin eru mikil hér og þá á ég ekki bara við landbúnaðinn heldur líka sjávarútveginn.

Hins vegar er það mín skoðun að í það minnsta ætti að ná samstöðu um það að í viðskiptastefnu sem þessari að við mundum sækja fram á erlenda markaði og gera þá eins og menn gera gjarnan, að semja við önnur lönd. Þú opnar hluta af þínum markaði meðan ég opna hluta af mínum. Það er eins og staðan er núna og það á sérstaklega við um landbúnaðarafurðir.

Við erum aðilar að EFTA sem eru fríverslunarsamtök og við getum gert einhliða samninga við allar þær þjóðir. Við erum ekki í tollabandalagi eins og Evrópusambandið sem er verndarbandalag í eðli sínu og er ekki fylgjandi frjálsri heimsverslun. Ástæðan fyrir því að svo lítið hefur gengið varðandi frelsi í heimsverslun er m.a. hvað Evrópusambandið og önnur samtök eru sterk þar. Það er auðvitað slæmt að ekki hefur gengið betur á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er umhverfið einhvern veginn svona að GATT, sem síðan varð Alþjóðaviðskiptastofnun, WTO, eru samtök sem berjast fyrir heimsverslun og hafa gert gríðarlega góða hluti hvað það varðar. En vegna þess hvað það hefur gengið hægt, það er mikil verndarstefna í heiminum, erum við með svæðisbundin fríverslunarsvæði og svæðisbundin tollabandalög og þeim er alltaf að fjölga. Síðan eru einstök ríki með sína fríverslunarsamninga.

Málið er mjög einfalt. Það hagnast allir á fríverslun, en þó sérstaklega litlar þjóðir sem eiga allt sitt undir útflutningi. Og það er ekkert flókið. Ef Ísland hefði ekki haft aðgang að erlendum mörkuðum þá værum við enn þá fátæk þjóð. Það er fullkomlega útilokað fyrir Íslendinga að vera með góð lífskjör nema við hefðum aðgang að erlendum mörkuðum. Það er á sama hátt vonlaust fyrir fátæk ríki heims að vinna sig út úr þeirri stöðu sem þau eru nema þau fái aðgang að erlendum mörkuðum.

Á vettvangi EFTA, en ég er formaður þingmannanefndar EFTA, er mikið unnið að fríverslunarsamningum, bæði við að endurnýja þá sem eru til staðar og síðan erum við að fara út í nýja samninga. Það er mín skoðun að við eigum að beita okkur á þeim vettvangi og það verður þá að vera samstaða um það milli þings og ríkisstjórnar að við eigum að beita okkur fyrir því og hvetja EFTA til að beita sér enn frekar en nú er gert til að gera fríverslunarsamninga. Það eru ýmis svæði sem við höfum ekki samið við. Og við eigum að nota okkar aðstöðu til að hvetja EFTA til ganga lengra en nú er gert. Það vilja allir semja við EFTA. Við erum þar í félagi með Sviss, Noregi og Liechtenstein. Það er auðvitað afskaplega gott fyrir okkur Íslendinga að vera þarna inni því þetta eru stórir markaðir — ekkert sérstaklega stórir markaðir á heimsvísu, en meðalstórir markaðir með mikla kaupgetu. Maður fann það til dæmis núna þegar þingmannanefnd EFTA fór til Malasíu og Singapúr að í þeim heimshluta hafa menn áhyggjur og eru hræddir við stóra aðila, hvort sem það eru Kína, Bandaríkin eða ESB. En þegar þessi fjögur ríki koma eru allir tilbúnir til að setjast niður með þeim, að því gefnu að við sýnum því áhuga og sýnum frumkvæði hvað það varðar. Við njótum mikils góðs af þessu samstarfi.

Í örstuttu máli er þessi þingsáyktunartillaga lögð fram til að bæta hag neytenda og verslunar í landinu. Við erum að flytja inn störf til landsins. Íslendingar eru ekki kjánar, þeir versla þar sem það er hagkvæmt og hafa sem betur fer tækifæri til að fara út um allan heim. Ef við erum ekki með samkeppnishæfa verslun þá munu Íslendingar halda áfram að versla annars staðar (Forseti hringir.) og þeir útlendingar sem hingað koma munu versla minna en við vildum gjarnan að þeir gerðu.