144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

23. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um mótun viðskiptastefnu Íslands. Hún gengur fyrst og fremst út á það að ná niður vörugjöldum og tollum. Nú liggur svo vel við að við ræddum hér í þessari viku niðurfellingarnar á vörugjaldi, sem gladdi mig óskaplega mikið því að það hefur verið baráttumál mitt um áratugi. Það þurfti að grisja þann frumskóg fyrst. Vandinn við að grisja hann er sá að það gat enginn grisjað hann því að enginn þekkti hann. En nú er hann bara höggvinn niður á einu bretti og er það gleðiefni, það munu heimilin vissulega skynja.

En þá eru tollarnir eftir. Þegar maður vill fella niður tolla er náttúrlega sagt: Ja, við þurfum að nota þá sem skiptimynt við aðrar þjóðir svo þær felli líka niður tolla. Það má ekki grípa til skynsamlegra ráðstafana vegna þess að það virkar einhvern veginn öðruvísi á aðrar þjóðir. Auðvitað er skynsamlegt að fella niður tolla sem gera ekkert annað en að hækka vöruverð á Íslandi, hækka verð á vörum umfram það sem þyrfti. Það leiðir svo til undarlegrar niðurstöðu, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á í ræðu sinni; það eru fríverslanirnar um allan heim.

Einhvern tíma sá ég spá um að í framtíðinni yrðu fargjöld með flugfélögum ókeypis en skilyrðin yrðu þau að menn stoppuðu svona tvo tíma í hverri flughöfn og gróðinn af því mundi borga miðana með flugfélögunum. Það er kannski fulllangt gengið en lausnin kann að vera eitthvað í þá veru vegna þess að það er mikill hagnaður af þessum verslunum. Af hverju skyldi vera hagnaður af þessum verslunum? Það er vegna þess að vörurnar eru skattfrjálsar, allir neysluskattar eru felldir niður. Það gerir það að verkum að það verður ákveðin stéttaskipting í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið óþreytandi að nefna.

Hverjir geta ferðast? Þeir sem hafa efni á því að kaupa farmiða, sem verða kannski alltaf ódýrari og ódýrari af því að gróðinn myndast í fríhöfnunum. En þeir þurfa líka að borga hótel og annað slíkt og það eru ekki nema sumir sem hafa efni á því. Svo má ekki gleyma því að fjöldi fólks fer í viðskiptaferðir til útlanda en það er yfirleitt fólk sem er í betri stöðu, opinberir starfsmenn og þá yfirleitt forstöðumenn, og þingmenn eru líka mikið á ferðalögum. Ég er alltaf að flengjast um heiminn og oft í einhverjum fríhöfnum og gæti keypt skammtinn minn þar ef ég kærði mig um. Ég nenni því nú yfirleitt ekki en það er önnur saga.

Ég nýt þeirra forréttinda að sleppa við neysluskatta sem Jón og Gunna, sem eru verkamaður og verkakona, sleppa ekki við. Það gengur náttúrlega ekki, þetta er svo mikið misrétti þannig að við verðum að vinda bráðan bug að þessu. Einhvern tíma sá ég að stærsta snyrtivöruverslun Íslands væri staðsett í Keflavík. Aumingja kaupmennirnir hérna í Reykjavík eru í vonlausri keppni við fríverslunina í Keflavík sem gómar örþreytt fólk sem kemur frá útlöndum og lokkar það til að kaupa alls konar varning og borgar heldur ekki sömu tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt og aðrir. Virðisaukaskatturinn hefur heilmikið að segja, hann er náttúrlega alltaf í hærra þrepinu, 25,5% sem stendur, en vonandi lækkar hann í 24%, sem er eitt af því sem mjög gleðilegt við það frumvarp sem ég nefndi áðan.

Þeir sem njóta þessa furðulega kerfis með fríhafnirnar eru sem sagt sá hópur landsmanna sem er frekar velmegandi. Þeir sem ekki njóta þess eru hinar margumræddu fátæku fjölskyldur sem menn vilja vernda þegar kemur að matarskattinum, sem er þó algert brotabrot af því sem menn njóta sem ferðast.

Það sem mér finnst að Íslendingar og EFTA ættu að gera er að hoppa inn í fríverslunarsamning Evrópusambandsins við Bandaríkin þegar hann liggur fyrir, mér skilst að hann sé kominn nokkuð langt, og njóta þeirra tollfríðinda sem sá samningur býður. Svo eigum við náttúrlega að halda áfram ótrauð, burt séð frá öllum sjónarmiðum um „ég skal gefa þér þetta ef þú gefur mér hitt“, að fella niður tolla einhliða, því að það kemur íslenskum heimilum til góða og kannski sérstaklega þeim fátæku heimilum sem menn hafa rætt mikið um hér varðandi matarskattinn. Það kæmi þeim sérstaklega til góða því að þau geta ekki verslað í Fríhöfninni.

Ég er mjög hlynntur þessu máli enda er ég þarna á blaði sem flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu um mótun viðskiptastefnu og vil að við förum að taka á honum stóra okkar og fella niður tollana og lækka virðisaukaskattinn úr efra þrepinu enn meira. Ég gleðst náttúrlega yfir því að við þurfum ekki lengur að berjast við vörugjaldið nema náttúrlega af áfengi og bílum og slíku, en það eru sérlög um það.