144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

útreikningur nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

18. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir andsvarið. Ég tel viðmið varðandi húsnæðiskostnað einstaklings í skýrslu frá velferðarráðuneytinu, upp á 72.972 kr., of lágt. Ég þekki til dæmis ágætlega til nokkurra námsmanna, ef við hugsum til stúdenta við háskóla sem búa í einstaklingsíbúðum, og þeir borga hærri upphæð. Ég tel því að skoða þurfi húsnæðiskostnað virkilega vel og gera úttekt á hver raunverulegur húsnæðiskostnaður mismunandi hópa er við vinnslu nýrra neysluviðmiða.

Til þess að finna út hver raunverulegur kostnaður er við að lifa af í dag er mín hugmynd sú að gerð sé könnun, sem er gerð opinber, öll reiknilíkön hennar og hvernig hún mun fara fram. Þannig sé fundið út hver neysla mismunandi fjölskyldustærða og heimila er, gerð úttekt á því hver hinn hefðbundni kostnaður fólk er við allt það sem við þurfum og horft til þess að fólk geti lifað mannsæmandi lífi, sem það þarf á að halda.