144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

útreikningur nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

18. mál
[17:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir ágætisræðu og ágætistillögur. Umræðan er mjög þörf og nauðsynleg vegna þess að það eru miklar deilur um hvað fólk þurfi til að framfæra sér.

Hv. þingmaður kom lítið inn á fyrirbæri eins og einkabíl. Þarf fólk einkabíl? Er það einhver krafa? Einkabíllinn kostar 60–70 þús. kr. á mánuði og með strætó kostar 7 þús. kr. ef maður kaupir þriggja mánaða kort, annars 9 þúsund og eitthvað. Einkabíllinn er í rauninni 50 þús. kr. aukaútgjöld. Í flestum tilfellum gætu menn keypt hálfa íbúð fyrir bara einkabílinn.

Síðan er spurningin: Þarf maður utanlandsferð? Jú, það er orðin krafa og allt að því almenningseign að fara til útlanda. Hversu oft þá? Einu sinni á ári? Þrisvar á ári? Annað hvert ár, eitthvað slíkt? Allt eru þetta hlutir sem þyrfti að ræða. Það er einmitt mjög gott að ræða það opinberlega og fyrir opnum tjöldum hvernig menn reikna þetta.

Það hefur borið mikið á þeim misskilningi að meðalneysla sé það sama og lágmarksneysla. Það er algjör misskilningur á því hvað meðaltal þýðir því að inni í meðaltalstölum er líka fólk sem eyðir mjög miklu af því að það getur eytt mjög miklu.

Menn hafa rætt um hvernig bótakerfið er uppbyggt, hvað eru lágmarksbætur og líka hvað eru lágmarkslaun. Þá kemur upp dálítið merkilegur hlutur sem kom fram áðan í andsvörum, að það þyrfti að hækka lægstu laun. Þetta finnst mér alltaf, herra forseti, jafn sniðug hugsun. Af hverju stofnar ekki hv. þingmaður, sem krefst þess að hækka lægstu launin, fyrirtæki og borgar há laun ef það er svona auðvelt? Það finnst mér að hann eigi að gera. Hann á bara að stofna fyrirtæki og borga há laun, ekki gera kröfu til þess að eitthvert annað fólk stofni fyrirtæki og borgi há laun ef það er ekki hægt.