144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

útreikningur nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

18. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Neysla heimilanna hefur breyst óskaplega mikið síðustu 50 eða 70 árin eða svo. Hún er allt önnur í dag en hún var. Hún verður allt önnur eftir 10, 20 eða 30 ár en hún er í dag. Ég kom eiginlega inn á það hvað hv. þingmaður flokkaði til þess sem maður þarf til að lifa svokölluðu mannsæmandi lífi sem er mannsæmandi kannski hérna en herragarðslíf í öðrum löndum, telst samt jafnvel tæpast mannsæmandi hér á landi.

Slíkar kröfur eru alltaf háðar því hvað efnahagslífið getur greitt í bætur með sköttum sínum eða launum miðað við það að borga beint og hvað við getum leyft okkur. Það er ekki sjálfgefið að við getum leyft okkur allt það sem við leyfum okkur í dag. Það er ekkert náttúrulögmál og var það alls ekki fyrir 100, 200 árum.

Það sem ég vildi koma inn á er að það sé upplýst um þær kröfur sem við gerum á samfélagið, bótakerfið, atvinnurekendur og atvinnulífið, því að þetta eru eiginlega kröfur á að þau borgi þau laun sem standa undir þessari neyslu sem við gerum kröfu um. Þess vegna dró ég fram þetta með einkabílinn og líka utanlandsferðirnar, að um þessa þætti þyrfti að fara fram umræða um hvort þeir séu nauðsynlegir eða ekki.