144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:14]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð á tillögunni.

Ég er mjög sammála þeim meginpunkti í þingsályktunartillögunni um að vinna að jöfnu aðgengi allra landsmanna að internetinu, óháð búsetu og fjárhag. Ég veit að það standa rík rök á bak við það og auðvitað er ég mjög fylgjandi nettengingu fyrir alla, óháð búsetu, þar sem ég bý nú á Vestfjarðakjálkanum. Ég hef þurft að nýta mér bæði dreifnám, heimabanka, skattskil og sækja fréttir og þjónustu í gegnum internetið. Ef við ætlum að veita þessa þjónustu verðum við auðvitað að hugsa um netið líka. Það þýðir ekki að berjast fyrir dreifnámi alls staðar ef við ætlum ekki að bæta verkfærin til þess.

Í fjarskiptaáætlun 2011–2022 kemur fram að tryggja skuli öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tenginga við umheiminn ásamt fleiri punktum sem snerta internetið. Mig langaði að spyrja hv. þingmann um sýn hennar á það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni sem ekki er lögð áhersla á í fjarskiptaáætluninni. Hver verður ávinningurinn með þingsályktunartillögunni, verður frekari ávinningur með henni heldur en áætluninni sjálfri?