144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:26]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka stuðninginn og ræðuna. Þingmenn Pírata vildu gjarnan leita til fleiri þingmanna um að vera með á þessari tillögu en það kom til mjög snöggt að við ákváðum að setja hana saman, sem okkar innlegg í dag, á þessum svokallaða „internet slow day“ þar sem fólk alls staðar úr heiminum sýnir samstöðu í því að vilja ekki að netinu verði skipt upp í hraðbraut og sniglabraut. Ég veit að það er stuðningur fyrir þessu í þinginu út af því að þetta er þjóðþrifaverk. Ég er hjartanlega sammála þingmanninum um að stjórnin geri aðgerðaáætlun um ákveðna þætti, það þarf að forgangsraða í aðgerðaáætluninni, og að sjálfsögðu hlýtur það að hafa vigt ef þingið felur ríkisstjórninni að forgangsraða.

Liður í þessu er að fá að sjálfsögðu kostnaðarmat á því að allir fái jafnt aðgengi. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli. Ef það er ekki nógu skýrt í tillögunni þá skýri ég það hér með. Ég vona innilega að okkur takist að drífa í þessu út af því að allir þeir sem lifa í þeim nútíma sem við búum í uppgötva að það er alltaf verið að þrýsta manni út í það að vera með meiri hraða út af því að gögnin sem ferðast um netið verða alltaf sífellt flóknari og þyngri. Það er mjög brýnt að vera alltaf á tánum í þessum málum eins og svo mörgum öðrum.