144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þetta með þingmanninum. Ég upplifði það einmitt að taka mitt nám í gegnum fjarnám, þ.e. ég tók framhaldsskólann í gegnum fjarnám af því ég bjó úti á landi þar sem ekki var framhaldsskóli. Ég man eftir því að ég þurfti að hringja upp til þess að sækja námsgögnin, svo lagði ég á af því þetta var svo dýrt. Svo sendi maður gögnin aftur þegar maður var búinn að læra. Og svo ég segi það hér þá fór ég allan minn framhaldsskóla og háskóla í gegnum fjarnám, þannig að ég hef mikla reynslu af því að nema í gegnum netið. Það eru forréttindi að geta gert það.

Grunnmálið er því jafnt aðgengi og hver ber ábyrgð á því. Hér var komið inn á ábyrgð þeirra sem selja þjónustuna. Það er verið að selja okkur ýmsa þjónustu, t.d. í minni heimabyggð er verið að selja okkur ljósnet, en málið er að leiðslurnar, símalínurnar, bjóða ekki upp á flutningshraðann, þær eru bara úr kopar, þær bjóða ekkert upp á þetta, þær flytja ekki nema ákveðið magn. Þarna er tappi.

Stórar stofnanir eins og menntaskólinn eru síðan með sitt, menntaskólarnir þjónusta bara sjálfa sig og til að nemendur geti stundað það nám sem þeir bjóða, sveitarfélagið leggur sérstaklega inn til sín o.s.frv. Það er því víða, held ég, verið að bjóða eitthvað sem er í rauninni ekki raunhæft. Maður borgar fyrir svo miklu meira en maður nær raunverulega til sín í hraða og öðru slíku. Það er auðvitað pínulítil blekking sem mjög margir átta sig ekki á. Auðvitað mundi fólk ekki kaupa sér dýrari þjónustu þegar það vissi að það fengi í rauninni ekkert meira fyrir það, sérstaklega þá aukinn hraða.