144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Segjum að það séu ákveðin sveitarfélög sem fjarskiptafyrirtækin sjái sér hreinlega engan hag í að leiða ljósnet til. Hvað eigum við þá að gera? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við í það minnsta, þegar við förum í gegnum þessa þingsályktunartillögu í nefnd, komum með mjög skýra aðgerðaáætlun um hverjar skyldur þeirra eru. Hafa þau einhverjar skyldur? Mér finnst þetta vera spurning sem við þurfum eiginlega að svara.

Síðan leikur mér forvitni á að vita hvað eru efri lög fjarskipta. Þingmaðurinn nefndi það og ég átta mig ekki alveg á því hvað það er. Ég er hjartanlega sammála því að þetta er mjög slæmt þegar við erum að sigla inn í tímabil þar sem við megum eiga von á eldgosum, ekki bara á Bárðarbungusvæðinu heldur eru ýmis önnur svæði komin á tíma, þar á meðal svæðin hér í kringum höfuðborgarsvæðið. Það er nauðsynlegt að svo sé um hnúta búið að allir fái skilaboð ef eitthvað kemur upp á. Þá langaði mig að spyrja þingmanninn hvort til sé einhver alvöruaðgerðaáætlun um það.