144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:45]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heilmikil vinna hefur farið í það að greina allt landið. Það eru markaðssvæði og svo eru svæði með markaðsbresti. Það er því alveg viðurkennt að hið opinbera þarf að koma að þeim svæðum þar sem markaðsbrestur er, ég held að öllum sé það ljóst. Í hvaða formi það er, hvað þetta gerist hratt, ég held að þetta snúist frekar um það hve hratt við getum byggt þetta upp. Hvort það er þá ríki eða sveitarfélög, eða ríki og sveitarfélög saman og þessi fjarskiptafyrirtæki.

Efri lög og neðri lög — neðsta lagið er í raun grunnnetið, það er rétt eins og rafmagnskerfið okkar. Þar er eitt grunnnet og svo geta rafmagnsframleiðendur selt rafmagn hvert á land sem er. Það sama á við í þessu, það er ekki nóg að hafa grunnnetið því við hinn endann þarf tengibúnað og þar kemur kannski flækjustigið og þar verður kannski samkeppni ef svo má segja. Ég skal viðurkenna að ég er ekki alveg sérfræðingur í þessu, en þar mundi samkeppnin vera. Ég hef trú á því að við finnum einhverja lausn á þessu sameiginlega, ríkið og sveitarfélögin og þeir aðilar sem starfa í greininni.