144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

efnahagsmál.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ánægjuefni að hagvöxtur á árinu 2013 reyndist meiri en spár gerðu ráð fyrir, jafnvel undir lok síðasta árs. Varðandi árið 2014 er full ástæða, eins og hv. þingmaður bendir á, að fylgjast mjög náið með framvindunni. Áhrifin fyrir fjárlagagerðina á næsta ári tel ég að verði afskaplega takmörkuð vegna þess að landsframleiðslan, þótt eitthvað flytjist til í tíma hvernig hún vex á árinu 2013 og árinu 2014, verður um það bil hin sama og við höfum verið að gera ráð fyrir á árinu 2015. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort landsframleiðslan hefur vaxið örlítið meira eða minna árið 2013 og síðan á hinn veginn árið 2014 ef landsframleiðslan í heild stefnir þangað sem við gerum ráð fyrir. En að sjálfsögðu verður farið yfir tekjuforsendur fjárlagafrumvarpsins þegar hagvaxtarspá næsta árs verður endurskoðuð, þjóðhagsspá Hagstofunnar birtist í nóvember geri ég ráð fyrir.

Varðandi þróun á viðskiptajöfnuðinum er líka hægt að taka undir það með hv. þingmanni að við þurfum að fylgjast mjög náið með þróuninni. Varðandi vöxt einkaneyslunnar vil ég nú meina að það sé til merkis um bættan hag heimilanna að einkaneysla sé aðeins að taka við sér. Við skulum hafa það í huga að hún er þó ekki nema um 80% af því sem hún var á árinu 2005, þannig að við erum að koma úr djúpum dal með einkaneyslu heimilanna. Sá samdráttur sem hefur orðið á kjörum heimilanna hefur auðvitað birst í því að einkaneysla dróst verulega saman.

Það sem er hins vegar ánægjulegt fyrir okkur er að álverð er aðeins að taka við sér en það eru hættumerki í viðskiptalöndunum, ákveðin stöðnun í Evrópusambandinu, sem getur til lengri tíma ef það verður viðvarandi ástand bitnað á viðskiptakjörum okkar.

Í heildina séð er staðan (Forseti hringir.) nokkuð góð og útlitið bjart.