144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

efnahagsmál.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég held að í seinni tíð hafi ekki jafn mörg fjárfestingarverkefni verið komin eins langt og á við núna. Fjöldinn allur af stórum fjárfestingum er fyrirhugaður á næsta og þarnæsta ári sem mun hafa veruleg áhrif á atvinnuvegafjárfestingu á því tímabili og skipta máli varðandi sköpun nýrra starfa og hagvöxt. Það hafa orðið til um fjögur, fimm þúsund störf á síðastliðnu rúmu ári.

Það er algerlega fjarri lagi að hér sé stefnan að viðhalda kyrrstöðu. Við þurfum að halda áfram að sækja fram og skapa ný störf. Atvinnuvegafjárfesting gegnir þar lykilhlutverki. Þess vegna er ríkisstjórnin að stórauka framlög til rannsóknar og þróunar með sérstöku átaki sem birtist strax í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þess vegna er menntakerfið til dæmis til endurskoðunar, til þess að tryggja að í framtíðinni muni menntakerfið (Forseti hringir.) skila fólki sem mætir þörfum atvinnulífsins.