144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[10:47]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Af orðum hæstvirtra ráðherra núverandi ríkisstjórnar má ráða að ekki séu áætlanir um að verja fé úr ríkissjóði til byggingar nýs Landspítala. Einnig má skilja orð þeirra svo að ekki séu áætlanir um lántöku í því sambandi.

Nýtt húsnæði fyrir þjónustu Landspítalans hefur verið forgangsmál stjórnenda og starfsfólks spítalans í mörg ár. Gildar ástæður eru þar að baki og ber hæst óhagræðið af rekstri í núverandi húsnæði. Kostnaður við flutninga starfsfólks og sjúklinga milli húsa í hverfum borgarinnar er umtalsverður. Kostnaður vegna skorts á húsnæði fyrir sjúklinga, tækjum og starfsfólki er einnig umtalsverður. Kostnaður og óhagræði sjúklinga vegna þjónustu sem þeir bíða eftir er einnig vaxandi. Kostnaður við viðhald er mikill og fer sömuleiðis vaxandi.

Nýjasta dæmið um skammtímalausn sem Landspítalinn hefur þurft að grípa til er 500 fermetra bráðabirgðaskrifstofubygging sem mun kosta um 115 millj. kr. Kostnaðurinn af óhagræði vegna húsnæðis spítalans er meiri en sem mundi nema vaxtakostnaði af láni til nýrrar byggingar.

Almenn regla er að fjármagna ríkisframkvæmdir á einhvern hátt. Vil ég því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi hugleitt möguleika til að fjármagna nýja byggingu fyrir Landspítalann. Ef svo er, hverjir eru þeir möguleikar?