144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

gagnaver og gagnahýsing.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Jú, ég get svarað því mjög einfaldlega að það skiptir máli að óvissuþáttum eins og þessum sé eytt. Þetta er ekki nýtt álitamál, þetta hefur verið uppi á borðum mörg undanfarin ár. Þessi ábending um fasta starfsstöð og skattalegar reglur á Íslandi og túlkun þeirra kom fram fyrir nokkrum árum.

Mér sýnist á öllu að það sem hér er á ferðinni sé að þeir sem hafa kallað eftir túlkun á skattalöggjöfinni séu ekki endilega sáttir við niðurstöðuna og séu í raun að bíða eftir endurskoðun á þeirri afstöðu og eftir atvikum þá breytingum á lagareglum eða að minnsta kosti túlkun lagareglna.

Þetta er mál sem við getum ekki haft hangandi endalaust í lausu lofti og skiptir máli, sérstaklega vegna þess vaxandi áhuga sem er á því að koma með starfsstöðvar til Íslands í þessum geira. Að öðru leyti get ég bara tekið undir með þingmanninum um að við eigum að ryðja burt hindrunum sem kunna að vera til staðar svo þessi starfsemi geti fengið þrifist hér, en hún á að gera það á sömu almennu viðskiptalegu forsendum og önnur starfsemi.