144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

gagnaver og gagnahýsing.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er góð nálgun sem hv. þingmaður er með hér, að reyna að ryðja úr vegi því sem er auðveldast að taka fyrst. En ég hygg að það sé fjölmargt annað sem getur ráðið úrslitum um það hversu kraftmikill vöxturinn í þessum geira verður á næstu árum.

Þar skipta fjölmargir þættir máli, eins og til dæmis orkuverðið í landinu. Það skiptir máli hvernig tengingar eru við landið og ég hef heyrt áhyggjur manna af því að þær séu ekki nægilega traustar þó að við sjáum nú þegar ákveðna uppbyggingu. Aðrir hafa áhyggjur af því að við séum ekki með nægilega marga strengi til landsins.

Það er alveg ljóst að gríðarlega ör vöxtur verður í þessum geira á komandi árum og hann er nú þegar mjög ör, starfsemin ört vaxandi. Það lýsir sér til dæmis í því að einstaka viðskiptavinur gagnavers á Íslandi var ábyrgur fyrir meiri gagnaflutningi um strenginn til landsins ákveðinn dag en restin af þjóðinni. Allt Ísland (Forseti hringir.) var með minni gagnaflutning en einn viðskiptavinur hjá einu gagnaveri.