144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

[11:01]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Veigamesti munurinn á fyrirhuguðum skattbreytingum þessarar ríkisstjórnar, sem kynntar hafa verið, og þeim sem fyrrverandi ríkisstjórn stóð fyrir er sá að hér er um almenna breytingu á virðisaukaskattsumhverfinu að ræða. Í því tilfelli er athyglisvert að fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, skuli taka dæmi um 14% hækkunina en ekki þá sem hún lagði til í fjárlagafrumvarpi sínu, sem var að hækka virðisaukaskatt á eina atvinnustarfsemi þannig að virðisaukaskattur á gistingu færi úr 7% í 25,5%. Sú breyting átti að gerast með þriggja mánaða fyrirvara og talaði hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra fyrir því.

Ég get alveg tekið undir, og ég hef ekki skipt um skoðun á því, að svona breytingar á að gera í tíma. Þessi virðisaukaskattsbreyting á að taka gildi frá og með 1. maí á næsta ári. Fjármálaráðherra hefur sjálfur sagt, m.a. á opnum fundi um daginn, að allt þetta megi skoða. Þetta eru stórar upphæðir í heildarbreytingunni en þessi þáttur er ekki stærstur eða veigamestur. Nú er frumvarpið til meðferðar í þinginu og þessi atriði verða skoðuð líkt og önnur sem til umræðu hafa verið.