144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

[11:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er oftast tilbúin til þess að ræða hugmyndir mínar um æskilegar breytingar á skattkerfinu, en hér og nú er ætlast til þess að hæstv. ráðherra svari fyrirspurnum mínum.

Önnur fullyrðing sjálfstæðismanna sem hljómar nokkuð undarlega nú er sú að með því að lækka skattprósentur muni tekjur ríkissjóðs aukast. Sumir gagnrýnendur þessarar kenningar kalla þetta vúdú-hagfræði.

Hæstv. ferðamálaráðherra sagði í ræðu haustið 2012, með leyfi forseta:

„… vinstri flokkarnir skilja ekki, að skattahækkun sé ekki einhver föst stærð, einhver krónutala, maður hækkar skatt úr 7% í 14% og fær sömu upphæðina.“

Í ljósi þessarar fullyrðingar núverandi hæstv. ráðherra er spurning mín þessi: Er hæstv. ráðherra enn þeirrar skoðunar að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu skili engum viðbótartekjum í ríkissjóð?