144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna meðal annars tekjustofna í ferðaþjónustu og hvernig eigi að fjármagna uppbyggingu innviða í ferðaþjónustunni. Við erum eflaust öll sammála um að það þarf að gera miklu betur í því.

Fyrsta málið sem ég sat og hlustaði á í þingsal var þegar ríkisstjórnin ákvað að hækka ekki virðisaukaskatt af gistingu upp í 14%. Mér fannst minni hlutinn færa mjög góð rök fyrir því að það þyrfti að hækka virðisaukaskattinn en því miður hlustuðu stjórnvöld ekki á þau rök en koma núna með breytingar og hækka upp í 12% og afnema eina undanþágu. Þótt það sé mjög gott þyrfti að afnema fleiri undanþágur.

Á sama tíma og ríkisstjórnin vildi ekki hækka virðisaukaskatt á gistingu lækkaði hún framlög í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða mjög mikið. Svo kom í ljós það sem allir sáu og bentu á að framlögin voru ekki nógu mikil og þá eru fundnir einhverjir peningar sem verða settir inn á fjáraukalög. Ég mun ekki þreytast á því að minna þingið á þessi óforsvaranlegu vinnubrögð. Fjáraukalög á ekki að nota með þessum hætti.

Ég hef líka sagt við hæstv. ráðherra, og ég tek undir orð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, að við erum öll hérna tilbúin að vinna saman að þessu máli. Þetta er ekki ríkisstjórnin á móti minni hlutanum eða eitthvað svoleiðis. Við þurfum að gera eitthvað, við þurfum að fá tekjur og við þurfum að efla Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Mér fannst það gott hjá fyrri stjórnvöldum að stórefla þann sjóð, það var nauðsynlegt.

Svo er líka annað sem ég held að við verðum að skoða og þora að tala um og það er svört atvinnustarfsemi í greininni. Það verður að taka á því, en á sama tíma skera stjórnvöld niður hjá skattrannsóknareftirliti. (Forseti hringir.) Hvernig hangir það saman?