144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum meðal annars að ræða gjaldtöku fyrir ferðaþjónustuna. Það er eiginlega helmingurinn af allri þessari umræðu út af því að markaðir tekjustofnar virðast ekkert skila sér þangað sem þeir eiga að fara. Það þekkjum við mjög vel í íslensku samfélagi.

Varðandi gjaldtökuna er spurning hvort ekki væri hægt að gera þetta einfalt á þann hátt að það væri bara tekið ákveðið gjald. Ég hef ferðast víða og víða í flughöfnum þarf ég að greiða lítið gjald. Maður er þarna hvort eð er, maður þarf að fara í gegnum eitthvert lítið ferli og greiða lítið gjald. Það væri hægt að gera hér við alla ferðamenn sem koma inn í landið, sem staldra ekki bara við í Leifsstöð og halda svo áfram eitthvað annað — þá gengi það yfir alla, mjög einföld gjaldtaka.

Ég heyrði mjög áhugaverða hugmynd nýlega. Á sama tíma og gjaldið er tekið fær fólk kennitölu sem það getur notað á Íslandi, eins og Íslendingar, að því gefnu að persónuupplýsingar séu virtar, þ.e. að persónurekjanleiki þeirra upplýsinga sé afmáður, þá getur Hagstofan og ríkið fengið ýmsar mikilvægar upplýsingar um ferðaþjónustu á Íslandi þegar ferðamenn framvísa þessum kennitölum við kaup á vöru og þjónustu; þeir mundu til dæmis þurfa að gera það ef þeir ætluðu að fá skattinn til baka o.s.frv. Það yrði mjög góð upplýsingalind fyrir hið opinbera til að skoða hvernig ferðaþjónustumál þróast á Íslandi, að því gefnu náttúrlega að persónulegar upplýsingar yrðu afmáðar.