144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka málshefjanda fyrir að færa þetta mál inn í þingsal. Ég vil líka þakka fyrir umræðuna. Það er afskaplega gott til þess að vita og jákvætt að menn eru reiðubúnir til að taka saman höndum til að efla innviði ferðaþjónustu.

Þetta mál er auðvitað miklu eldra en fjögurra ára því að milli 2002 og 2007 varð um það bil 12% vöxtur í komu ferðamanna á hverju ári. Það má því segja að liðið hafi um það bil áratugur þar sem menn höfðust lítt eða ekki að.

Þegar við horfum til þess að byggja upp innviði, verðum við líka að gá að því að íslensk náttúra er ekki bara fögur, hún getur líka verið ógn. Við þurfum þess vegna líka að tryggja öryggi þeirra ferðamanna sem koma hingað.

Ég hef þá trú að á þeim ferðamannastöðum sem fjölsóttastir eru þurfum við jafnvel að taka upp ítölu. Ég get nefnt staði eins og Landmannalaugar, Laugaveginn og fleiri. Þetta eru staðir sem þola ekki mikinn ágang.

Sá sem hér stendur er einlægur náttúrupassaunnandi, ég skal segja það strax. Ég tel að með góðri útfærslu á náttúrupassa sé hægt að ná miklum árangri. Það er hægt að ná einföldun vegna þess að núverandi gistináttagjald er innheimt af mjög mörgum aðilum, það er erfitt að fylgjast með því að innheimtan skili sér. Náttúrupassinn er einfaldur og það á að vera hægt að gera hann þannig úr garði, með því að hafa hann rafrænan, að hann geti í sjálfu sér stýrt fjármagninu svona að 70–80%. Það sem út af standi fari þá til svæða sem eru í sérstakri hættu eða svæða sem við viljum beina ferðamönnum á.

Fyrst og fremst skulum við taka saman höndum, eins og hér hefur komið fram. Ég fagna umræðunni og ég fagna því þegar (Forseti hringir.) tillögur ráðherra koma fram og koma til atvinnuveganefndar.