144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:41]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þakka þessa umræðu. Ég vil þakka sérstaklega þann tón sem hefur verið í henni og fagna því að hér eru þingmenn reiðubúnir til samstarfs. Það mun ég svo sannarlega nýta mér og hef reyndar átt ágætisspjall við marga þingmenn um þessi mál á því rúma ári sem liðið hefur frá því að ég tók við þessum málaflokki.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kallaði þetta hugarflugsfund. Þá vil ég segja að þessi hugarflugsfundur var boðaður af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og gulu miðarnir voru vegna þess að hv. þingmaður vék að því sérstaklega og vildi fá að vita hvort aðrar leiðir hefðu verið skoðaðar. Það er þess vegna sem ég varði dágóðum tíma í ræðu minni í að fara yfir það.

Þetta er brýnt, áríðandi, aðkallandi. Við vitum það og það þekkja allir sem eru hér. Þess vegna tek ég undir með öllum þeim sem hér hafa rætt um að það þurfi að ljúka þessari vinnu. Ég er að leggja drög að því að tillögur komi hér fram mjög fljótlega.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að gjaldtakan hefði verið ólögleg, að gjaldtakan hefði verið dæmd ólögleg, og var þá væntanlega að vísa í Kerið. En það er bara ekki rétt hjá hv. þingmanni. Það hefur ekki verið úrskurðað að gjaldtaka til að mynda við Kerið sé ólögleg. (ÖJ: Umhverfisstofnun …) Það er ekki dómstóll. (ÖJ: Nei.) Dómstóll hefur ekki úrskurðað um að þetta sé ólöglegt. Hv. þingmaður gerði lítið úr því að ég nefndi eignarréttinn og almannaréttinn. Það er bara þannig að þetta eru tvenn af grundvallarréttindum okkar, borgaranna, okkar sem búsett erum í þessu landi. Við verðum að taka tillit til hvors tveggja, það er það sem verið er að gera. Það verður kannski á endanum ekki útkljáð nema af hálfu dómstóla. (Forseti hringir.) Ég mun ekki taka mér það vald að banna hluti sem ekki er lagaleg vissa um að sé ólöglegir, til þess að svara hv. þingmanni (Gripið fram í.)