144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[11:49]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu málefni. Þetta er mikilvæg umræða. Við höfum, eins og fram kom í máli þingmannsins, verið að skoða þetta í ráðuneytinu núna í um það bil ár og það er sannarlega vilji til þess, bæði hjá mér sem ráðherra málaflokksins og einnig hjá ríkisstjórninni, að ráða bót á þessari meinsemd, sem ég vil kalla, sem við erum öll sammála um að uppræta.

Það sem gerir málið kannski aðeins snúnara er að ekki er til eitthvað eitt sem heitir kennitöluflakk samkvæmt lögum. Þess vegna þurfum við að gæta meðalhófs í þeim ákvörðunum sem við tökum og hafa í huga að það eru fjölmörg dæmi, eins og þingmaðurinn nefndi, um að aðilar sem hafa farið illa út úr ákveðnum tilteknum rekstri og orðið gjaldþrota hafi risið upp aftur og komið með frábæra hugmynd og komið henni í framkvæmd. Það er ekki glæpur að verða gjaldþrota en það er saknæmt að misnota það úrræði, sem er það sem við viljum koma í veg fyrir.

Við verðum þess vegna að gæta að því að aðgerðir gegn kennitöluflakki séu einmitt aðgerðir sem beinast gegn því en verði ekki hamlandi þegar kemur að nýsköpun og möguleikum frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum og verkefnum á framfæri.

Þetta er fín lína, það er fín lína milli kennitöluflakks og þess að gæta að samkeppnisstöðu fyrirtækja og þess að hindra nýsköpun.

En hvað er þá átt við með kennitöluflakki? Eins og ég sagði er engin lagaleg skilgreining. Oftast er þó átt við ákveðna misnotkun eigenda í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar og felst það í stofnun nýs félags í sama atvinnurekstri og það félag sem hefur verið úrskurðað gjaldþrota til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en viðhalda samt eignum.

Sú háttsemi veldur samfélaginu tjóni og felst gjarnan í því að félög eru keyrð í gjaldþrot með miklum skuldum í formi skatta, lífeyrissjóðsiðgjalda og gjalda úr Ábyrgðasjóði launa og svo við birgja og aðra kröfuhafa, m.a. launþega. Kerfisbundnar tilfærslur af þessum toga eru til þess fallnar að ýta almennt undir vantraust í garð atvinnulífs. Kostnaður atvinnulífsins eykst og samkeppnisstaða þeirra sem fara eftir leikreglunum skekkist.

Það sem við þurftum að byrja á að gera, og starfshópurinn sem vikið var að hefur verið að gera, er að kortleggja umfangið. Starfshópnum var ákveðinn vandi á höndum vegna þess að til þessa hafa ekki verið teknar skipulega saman upplýsingar af hálfu hins opinbera sem eru akkúrat til þess fallnar að kortleggja þennan vanda, þannig að við byrjuðum dálítið á byrjunarreit. Það hefur verið leitað til Hagstofunnar, ríkisskattstjóra, fyrirtækjaskrár, tollstjórans í Reykjavík og Ábyrgðasjóðs launa og við sjáum meðal annars að 3,6% fyrirtækja sem greiddu laun, þ.e. fyrirtæki í rekstri, voru tekin til gjaldþrotaskipta árið 2012. Þess ber að geta að það eru nýjustu tölur sem völ er á. Það er líka vísbending um að með bættu efnahagsástandi hefur gjaldþrotum fækkað, en þetta eru tæplega 350 félög af tæplega 13.400 félögum sem voru í rekstri á þessu ári, 2012, og af þessum 350 er áætlað að um 60 félög hafi skipt um kennitölu.

Þessi 60 félög eru þá mengið sem við þurfum að skoða betur og við erum að finna leiðir til þess að gera það, en aftur vek ég athygli á því að það er ákveðinn hængur á gagnasöfnuninni og það er kannski sú leið sem við þurfum að bæta okkur í, að finna leiðir til þess að skaffa lögmæti þess að kalla eftir þessum ákveðnu upplýsingum.

Annað sem er gagnlegt að upplýsa er að tollstjórinn í Reykjavík afskrifaði tæplega 16 milljarða kr. árið 2012 vegna skiptaloka lögaðila og Ábyrgðasjóður launa greiddi rúmlega 1 milljarð úr sjóðnum vegna gjaldþrota.

Þetta svarar ekki almennilega því hvað kennitöluflakk er. Þá er spurningin: Hvað erum við tilbúin að gera til að stemma stigu við þessu? Viljum við setja í lög ákvæði sem kveða á um tímabundið atvinnurekstrarbann í einhverju formi, t.d. með þeim hætti að einstaklingum sem hafa verið í forsvari fyrir fyrirtæki sem er orðið gjaldþrota verði bannað að stofna eða sitja í stjórn félaga? Þá kemur aftur þessi spurning: Hvað með þá sem eru ekki að þessu á saknæman hátt? Við viljum ekki koma í veg fyrir frumkvæði og nýsköpun í samfélaginu, þess vegna er þessi fína lína.

Það er líka spurningin um að hækka lágmarkshlutafé hlutafélaga, sú tryggingaumræða sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður nefndi, þetta eru allt leiðir sem ég get sagt að eru á borðinu. En ég ítreka að ég vil halda áfram og reyna að greina vandann og ná (Forseti hringir.) utan um það áður en við setjum lög sem geta heft og tafið fyrir nýsköpun og frumkvæði þeirra (Forseti hringir.) sem eru í atvinnurekstri í heiðarlegum tilgangi.