144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[11:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá. Það er brýnt fyrir okkur Íslendinga að auka allan aga í tengslum við rekstur og skil á gjöldum því að þar hafa mikil vanhöld því miður verið á.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er fín lína milli þess að láta menn axla ábyrgð og hins vegar að koma ekki í veg fyrir eða hræða fólk ekki frá því að stofna ný fyrirtæki. Atvinnurekstrarbann er auðvitað alvarleg aðgerð en það er hins vegar jafn augljóst að það eru dæmi um einstaklinga sem hafa stofnað svo mörg félög og sett svo mörg félög í þrot á tilteknu árabili að það getur ekki með nokkrum hætti verið eðlilegt. Það hlýtur þess vegna að koma sterklega til álita að framkvæma tillögu Alþýðusambandsins um að setja eitthvert hámark við því hversu oft menn geta farið þá leið.

Á síðasta kjörtímabili voru í efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddar lagabreytingar sem hafa aukið mjög aðhald með skilum á virðisaukaskatti og sömuleiðis aukið aðhald með skilum á ársreikningum.

Annað sem hér þarf að beita í ríkari mæli er að þegar menn í félögum með takmarkaðri ábyrgð skila ekki skýrslum, skila ekki gjöldum tímabil eftir tímabil þá ljúki á einhverjum tímapunkti hinni takmörkuðu ábyrgð og við taki persónuleg ábyrgð þeirra sem þannig standa að rekstri því að endalaust geta menn ekki stundað rekstur með takmarkaðri ábyrgð brjótandi lög tímabil eftir tímabil.