144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[12:13]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir mínar til málshefjanda fyrir að hafa stofnaði til þessarar umræðu sem hefur verið mjög góð og málefnaleg. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er þetta fín lína og við viljum koma fram með aðgerðir sem ráðast að rótum vandans en bitna ekki á þeim sem eru í heiðarlegum atvinnurekstri sem getur farið úrskeiðis þrátt fyrir góðan ásetning.

Þess vegna finnst mér lykilatriði að við ljúkum þessari gagnaöflun og sjáum hvernig við getum bætt lagalegar heimildir opinberra aðila til að kalla eftir upplýsingum og halda þeim saman þannig að við náum að rót vandans.

Hversu mörg af þeim 60 fyrirtækjum til dæmis sem ég nefndi í fyrri ræðu minni hafa skipt oft um kennitölu? Hér hafa verið nefnd dæmi úr umræðunni sem eru algjörlega óásættanleg. Ef stór hluti þessara 60 fyrirtækja er að skipta um kennitölu í fimmta, tíunda eða fimmtánda skiptið er það vandi sem við þurfum að ráða bót á.

Ég vil koma þessu máli í gott horf og stefni að því, og hópurinn stefnir að því, að ljúka því á allra næstu vikum. Þá munum við koma fram með tillögur, hvort það verði í hlutum, það er ekki endilega víst að það verði heildartillögur, um að ráðast gegn kennitöluflakki. Það gæti frekar verið í formi mismunandi breytinga. Við förum til dæmis að ræða á eftir breytingar á hlutafélagalögum sem eru að koma fyrirtækjaskrá í rafrænt form. Allar slíkar breytingar, einföldunaraðgerðir sem við erum með annars staðar, eru til þess fallnar að hjálpa okkur að halda utan um þessa gagnaöflun sem ég ítreka að er lykillinn að því að við ráðumst að rót vandans. (Forseti hringir.) Það er von mín að það gerist á allra næstu vikum.