144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, á þskj. 107.

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi og náði ekki fram að ganga þannig að um endurflutt mál er að ræða, að teknu tilliti til breytinga sem samþykktar voru í meðförum atvinnuveganefndar, samanber nefndarálit dagsett 6. mars 2014. Þó er breytingin á því frumvarpi sem hér er lagt fram frá fyrra frumvarpi sú að ekki er gert ráð fyrir innheimtu jöfnunargjalds á árinu 2014. Ástæða þess er sú að gert var ráð fyrir jafnri innheimtu gjaldsins yfir árið.

Eins og fram kom þegar frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi þá hefur um langt skeið legið fyrir að kostnaður við dreifingu raforku er mun meiri í hinum dreifðu byggðum landsins en í þéttbýli. Þessi kostnaðarmunur endurspeglast í því að gjaldskrár fyrir dreifingu raforku í dreifbýli eru hærri en gjaldskrár fyrir dreifingu á raforku í þéttbýli. Því miður hefur þróun síðustu ára verið í þá veru að kostnaðarmunurinn milli dreifbýlis og þéttbýlis hefur aukist. Raforkunotendum hefur fjölgað í þéttbýli og þar með hagkvæmni þess kerfis, m.a. með tilfærslu fiskimjölsbræðslna af olíu yfir á rafmagn. Á sama tíma hefur notendum fækkað í dreifbýli og því sífellt færri sem standa undir raforkukostnaði þar. Hækkunarþörf á gjaldskrám hefur því farið vaxandi í dreifbýli og að óbreyttu þarf að hækka taxta í dreifbýli umtalsvert til þess að standa undir kostnaði við dreifingu raforku þar.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að háir taxtar á dreifikostnaði raforku í dreifbýli og sívaxandi munur á milli raforkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli stuðlar í auknum mæli að fólksfækkun, samdrætti í atvinnurekstri og tilheyrandi neikvæðum byggðalegum áhrifum.

Á vettvangi ráðuneytis míns var því farið í það verkefni fyrir tæpu ári síðan í samráði við Orkustofnun og Samorku að leita leiða til þess að bregðast við þessari alvarlegu stöðu og reyna að tryggja betur raunverulega jöfnun á dreifikostnaði raforku í dreifbýli og þéttbýli. Má líta svo á að þarna sé um innviði að ræða líkt og vegakerfið, samgöngukerfið eða símkerfið þannig að það á ekki að skipta máli hvar á landinu menn búa þegar raforkukostnaður er annars vegar, hvort sem um dreifikostnað eða flutningskostnað er að ræða.

Niðurstaða þeirrar vinnu sem farið var í er frumvarpið sem ég mæli nú fyrir. Með því eru lagðar til ákveðnar breytingar á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Í þeim lögum er kveðið á um að greiða skuli niður kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli sé hann umfram viðmiðunarmörk sem taki mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

Frá árinu 2005 hefur af fjárlögum árlega verið varið 240 millj. kr. í jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, að frátöldu árinu 2014 þar sem framlagið nam 544 millj. kr. Til að byrja með árið 2005 nægðu 240 millj. kr. til að tryggja jöfnun raforkukostnaðar milli dreifbýlis og þéttbýlis í samræmi við markmið laganna. Vegna aukinnar raforkunotkunar og verðlagsþróunar er kostnaður við fulla jöfnun í dag áætlaður um 1 milljarður kr. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er brugðist við þessu og lagt til að tekið verði upp sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna. Tilgangur gjaldtökunnar er að standa undir fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku á grundvelli fyrrnefndra laga.

Dreifiveitur raforku í landinu, þ.e. Rarik, Orkubú Vestfjarða, Orkuveita Reykjavíkur, HS Veitur, Norðurorka og Rafveita Reyðarfjarðar, verða hinir gjaldskyldu aðilar samkvæmt frumvarpinu. Gjaldið er lagt á þá raforku sem fer um dreifikerfi þessara veitna, samtals um 3.400 gígavattstundir. Lagt er til að jöfnunargjaldið verði 30 aurar á hverja kílóvattstund en 10 aurar á ótrygga orku. Tekjur af gjaldinu eru áætlaðar um 915 millj. kr. á ári og munu tekjurnar renna í ríkissjóð og verða varið í jöfnun dreifikostnaðar raforku í samræmi við lög nr. 98/2004.

Lagt er til að jöfnunargjaldið verði tekið upp í tveimur áföngum til að unnt verði að aðlaga gjaldskrár dreifiveitnanna. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að tekjurnar af jöfnunargjaldinu verði 608 millj. kr. Þessar nýju tekjur koma því til viðbótar við 240 millj. kr. framlag fjárlagaliðarins, en gert er ráð fyrir að þegar gjaldtakan verði að fullu komin fram á árinu 2016 muni það framlag falla niður. Hafa ber í huga að með aukinni raforkunotkun munu tekjur af jöfnunargjaldinu hækka.

Í frumvarpinu er kveðið á um að innheimta jöfnunargjaldsins verði með sambærilegum hætti og kveðið er á um í raforkulögum, nr. 65/2003, varðandi raforkueftirlitsgjald dreifiveitna. Samkvæmt frumvarpinu er því innheimta hins nýja jöfnunargjalds einföld og skilvirk og kallar ekki á aukinn kostnað.

Fyrir liggja útreikningar frá Orkustofnun um mat á áhrifum jöfnunargjaldsins á raforkunotendur. Frumvarpið hefur áhrif bæði á almenna raforkunotkun sem og rafhitun húsnæðis á köldum svæðum. Fyrst að því er almenna raforkunotkun varðar er áætlað að verði frumvarpið að lögum muni lækkun í dreifbýli verða á bilinu 7,6–8,1% sem nemur 720–790 kr. á mánuði. Að sama skapi er áætlað að hækkun í þéttbýli vegna almennrar notkunar verði á bilinu 0,5–2,5% að meðaltali, þ.e. um 120 kr. á mánuði.

Upptaka jöfnunargjaldsins hefur sem áður segir einnig áhrif á þá notendur sem hita hús sín með rafmagni og njóta niðurgreiðslna á grundvelli laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Það er mat Orkustofnunar að jöfnunargjaldið muni leiða til þess að þörf á niðurgreiðslum til húshitunar í dreifbýli minnki. Það gefur svigrúm til hækkunar á niðurgreiðslu sem vegur á móti hækkun hjá íbúum í þéttbýli með rafhitun. Niðurstaðan er því sú að ekki verður um hækkun að ræða vegna rafhitunar húsnæðis í þéttbýli, lækkun á rafhitun húsnæðis í dreifbýli verður hins vegar á bilinu 9–9,5% sem nemur lækkun á raforkukostnaði upp á 21 þús. kr. á ári.

Heildaráhrifin eru því talsverð. Ef horft er á alla orkunotkun, bæði almenna raforkunotkun og rafhitun húsnæðis, hefur frumvarpið í för með sér um 8,8% lækkun á raforkukostnaði í dreifbýli og um 1% hækkun í þéttbýli. Athuga ber að áhrif fyrirhugaðra breytinga á virðisaukaskatti eru ekki inni í framangreindum tölum Orkustofnunar. Rétt er því, og ég beini því til hv. atvinnuveganefndar, að fara nánar yfir þann þátt málsins þegar frumvarpið kemur til nefndarinnar.

Varðandi köldu svæðin vil ég árétta að ekki verður um hækkun að ræða vegna húshitunar í þéttbýli en hins vegar um verulega lækkun í dreifbýli. Þetta samspil niðurgreiðslna dreifikostnaðar raforku og húshitunar er nokkuð flókið. Útreikningar Orkustofnunar um áhrif á einstaka notendur liggja sem áður segir fyrir og tel ég rétt og beini því til hv. atvinnuveganefndar að vel verði farið í gegnum þá sem og aðra þætti málsins í meðförum nefndarinnar.

Virðulegur forseti. Með frumvarpi þessu er verið að taka ákveðin skref í þá átt að stuðla að jöfnun raforkukostnaðar og húshitunarkostnaðar í hinum dreifðu byggðum landsins. Með frumvarpinu er reynt að tryggja að til staðar verði fjármunir á fjárlögum sem gangi óskertir í að fjármagna lög nr. 98/2004 og tryggja að munur á dreifikostnaði á raforku í þéttbýli og dreifbýli sé jafnaður. Er það markmið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að unnið verði að jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar.

Varðandi niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar vek ég athygli á að um þær niðurgreiðslur er fjallað í öðrum lögum, þ.e. lögum nr. 78/2002, og sérstakur fjárlagaliður er um þær niðurgreiðslur. Frumvarp þetta nær því ekki með beinum hætti til þess fjárlagaliðar en innan ráðuneytisins er til skoðunar hvernig unnt sé að tryggja aukin framlög til að tryggja fullar niðurgreiðslur og jöfnun þegar að húshitunarkostnaði á köldum svæðum kemur.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að með frumvarpi þessu séum við að stíga ákveðin skref í átt að auknum jöfnuði landsbyggðar og þéttbýlis og að dreifbýlið hafi jöfn tækifæri og þéttbýlið til atvinnuuppbyggingar og vaxtar. Ég tel því brýnt að frumvarp þetta fái góðan framgang í þinginu og tel að um það ætti að vera unnt að ná þverpólitískri sátt.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og til 2. umr.