144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem aðhyllast frelsi í viðskiptum og slíku eru yfirleitt á móti svona niðurgreiðslum vegna þess að þær skekkja ákvörðun fólks um staðsetningu, hvar það vill búa og annað slíkt. Ef mjög rammt kveður að þessu getur það komið niður á lífskjörum þjóðarinnar vegna þess að menn fara að taka ákvarðanir sem ekki eru réttar miðað við raunverulegan kostnað, af því að raunverulegur kostnaður er niðurgreiddur, greiddur af almenningi. Menn taka þá ákvarðanir um að gera eitt og annað, t.d. úti á landsbyggðinni, sem kemur niður á þjóðarhag. Þetta rekst á hið göfuga markmið þessara laga að gera öllum mönnum jafnt að nálgast raforku.

Til dæmis kemur niðurgreiðslu húsnæðishitunar í dag í veg fyrir að menn noti aðrar leiðir til þess að hita húsin sín, t.d. nota rekavið eða einhverjar aðrar leiðir til þess að hita, jarðvarma eða annað slíkt. Og þá hafa menn meira að segja byggt upp kerfi, frú forseti, sem er þannig að menn fá styrki til þess að virkja jarðvarma og annað slíkt til að vinna á móti hinum styrkjunum. Þetta sýnir hvað þessi kerfi geta orðið hættuleg.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er markmiðið að jafna orkuverð fyrir alla landsmenn, allar byggðir, burt séð frá kostnaði, meira virði en markmiðið að menn velji sér stað eftir því hvaða staðsetning er best og þjóðhagslega hagkvæmust?