144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:44]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi þær 240 milljónir sem munu falla niður, eins og boðað var í ræðu minni og er í frumvarpinu, þá er það einfaldlega vegna þess að jöfnunargjaldið mun þá vera farið að standa undir þessum kostnaði og því fellur það niður.

Varðandi stóriðjuna. Að tillögu nefndarinnar, sem hv. þingmaður vísar til, hef ég margítrekað svarað því hér til að það sem við erum að gera með þessu frumvarpi er að jafna kostnaðinn innan kerfisins þannig að þeir sem nota dreifiveiturnar taki þátt í þessu gjaldi því að þetta er kostnaður við dreifingu á raforku. Stóriðjan í landinu er að borga annars konar gjöld, þ.e. tengigjöld, spennugjöld o.fl., og er ekki notandi að dreifiveitunum. Lykilatriðið er að ef við værum að fara að leggja það gjald á stóriðjuna og aðra sem eru ekki í kerfinu þá væri það ekki jöfnun innan kerfis (Forseti hringir.) heldur skattahækkun á viðkomandi aðila sem greiða (Forseti hringir.) fyrir sambærilega hluti annars staðar í kerfinu.