144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á svipuðum slóðum, mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir áhrifum þess að samtímis upptöku þessa jöfnunargjalds í tveimur þrepum stendur til, samkvæmt frumvörpum hæstv. ríkisstjórnar, að hækka virðisaukaskatt á rafmagni og heitu vatni úr 7 í 12%. Lauslega áætlað virðist sem ávinningurinn af aukinni jöfnun innan kerfisins þurrkist með því nokkurn veginn út fyrir þá sem áttu að njóta góðs af.

Ég held að því verði ekki á móti mælt að þetta misrétti eða sá aðstöðumunur sem sá hluti þjóðarinnar býr við, sem er ekki svo heppinn að búa á svæðum sem bjóða upp á aðgang að hagkvæmum hitaveitum, er gríðarlegur og stingur í augu. Hann verður kannski tilfinnanlegri eftir því sem lægra hlutfall býr við þær aðstæður. Með nokkrum áföngum í hitaveituvæðingu á undanförnum árum er hlutfallið komið vel niður fyrir 10%, hlutfall landsmanna sem býr við þær aðstæður og býr í raun og veru í allt öðrum heimi hvað varðar þennan óumflýjanlega útgjaldalið að kynda húsið sitt.

Ég vil einfaldlega spyrja: Í ljósi þess að menn ætluðu að ná tilteknum markmiðum um jöfnun áður en hugmyndin um að hækka virðisaukaskatt kom upp, samanber frumvarp hæstv. ráðherra á síðasta þingi, má ekki gera ráð fyrir því að það sé samstaða um að hækka þá jöfnunargjaldið eins og til þarf til þess að sambærileg jöfnunaráhrif náist og til stóð áður en áformin um hækkun virðisaukaskatts komu fram, þ.e. skyldu þau ná fram að ganga?