144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (samþykktir o.fl.) á þskj. 12, mál nr. 12.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, í tengslum við vinnu sem þegar er hafin við undirbúning rafrænnar fyrirtækjaskrár. Hér er um að ræða verkefni í anda stefnu ríkisstjórnarinnar um að einfalda regluverk atvinnulífsins, auka skilvirkni, minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri. Þetta er ekki stærsta málið sem verður lagt fyrir þingið í þessa veru, en þetta er táknrænt fyrir vilja ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Með frumvarpinu verður einstaklingum og lögaðilum gert kleift að skrá hlutafélag og einkahlutafélag með rafrænum hætti. Auk þess er að finna í frumvarpinu ákvæði er lýtur að heimild félags með skráð hlutabréf á skipulögðum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga til að kaupa eigin hluti, sem og breytingar vegna tilkynninga til hlutafélagaskrár um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög í tengslum við þá vinnu sem þegar er hafin við undirbúning rafrænnar fyrirtækjaskrár. Með rafrænni fyrirtækjaskrá er einstaklingum og lögaðilum gert kleift að útbúa stofngögn vegna stofnunar hlutafélaga og einkahlutafélaga, undirrita rafrænt og senda til fyrirtækjaskrár á einfaldan og öruggan hátt.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að einfalda samþykktir félaga svo ekki þurfi að breyta samþykktum þótt minni háttar breyting verði á rekstri félagsins. Lagt er til að ekki þurfi að tilgreina í samþykktum hlutafélags eða einkahlutafélags í hvaða sveitarfélagi hér á landi félag skuli teljast hafa heimilisfang. Þess í stað er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að framangreindar upplýsingar skuli greina í stofnsamningi og að breytingar þar á skuli samþykktar á hluthafafundi. Lagt er til að ekki verði skylt að hafa í samþykktum hlutafélags ákvæði um fjölda framkvæmdastjóra séu þeir fleiri en þrír. Enn fremur er lagt til að látið verði nægja að tilkynning um stofnun hlutafélags eða einkahlutafélags sé undirrituð af öllum stjórnarmönnum félags en ekki verði lengur gerð krafa um að undirskriftir stjórnarmanna skuli staðfestar af lögbókanda, lögmanni, löggiltum endurskoðanda eða tveimur vottum. Að lokum er lagt til að tekið skuli fram að tilkynningu um stofnun hlutafélags eða einkahlutafélags skuli fylgja skrifleg yfirlýsing um að stofnendur félags uppfylli þau skilyrði sem um ræðir í 3. gr. laganna, að stjórnendur og framkvæmdastjórar uppfylli hæfisskilyrði 66. gr. laga um hlutafélög og 42. gr. laga um einkahlutafélög og að endurskoðendur eða skoðunarmenn uppfylli hæfisskilyrði laga um ársreikninga.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að hlutafélagi sem hefur fengið hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga verði ekki heimilt að kaupa eigin hluti á hærra verði en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem hærra er. Með breytingunni er ætlunin að stuðla að auknu jafnræði meðal hluthafa og koma í veg fyrir að félag geti haft ótilhlýðileg áhrif á verðmyndun hlutabréfanna með kaupum á eigin hlutum.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um tilkynningar til hlutafélagaskrár um kynjahlutföll í stjórnum félaga. Lagt er til að í stað þess að í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skuli sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn hlutafélags eða einkahlutafélags þá skuli slíkar upplýsingar koma fram í ársreikningi. Breytingin ætti að leiða til þess að auðveldara verður að fylgjast með því í gegnum fyrirtækjaskrá hvort hlutafélög fylgi ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga.

Verði frumvarp þetta að lögum mun það einfalda framkvæmd við skráningu nýrra hlutafélaga og einkahlutafélaga og fækka tilkynningum til fyrirtækjaskrár. Áhrif samþykktar frumvarpsins á stjórnsýslu ríkisins yrðu þannig helst á fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir og felast í einföldun í framkvæmd tiltekinna verkefna sem skráin sinnir og eykur líkur á að þær tilkynningar sem skránni berast séu réttar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð svo nokkru nemi.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem miðar að því að einfalda lagaumhverfi, tilkynningar og kröfur um gögn frá einkahlutafélögum og hlutafélögum án þess þó að opinberir aðilar og viðskiptalíf verði af nauðsynlegum upplýsingum.

Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæði laga um hlutafélög um eigin hluti.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.