144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins fyrr á þessum fundi var sérstök umræða um kennitöluflakk og aðgerðir til að taka á því. Það vill svo til að í þessu frumvarpi eru opnuð nákvæmlega sömu lög og hugmyndin hefur verið að breyta og styrkja til þess að takast á við þann vanda. Meira að segja er komið inn á og tekið á einum þætti sem var í tillögum starfshópsins sem skilaði af sér í febrúar 2013 til að taka á kennitöluflakki, þ.e. aukin skylda um að upplýsa og sundurliða í ársreikningi kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.

Hér eru sem sagt opnuð lög um hlutafélög, lög um einkahlutafélög og lög um ársreikninga. Þess vegna liggur alveg ákaflega vel við að taka þá með það sem menn eru á þessum tímapunkti orðnir ásáttir um að sé skynsamlegt að gera til þess að hefjast að minnsta kosti handa um aðgerðir gegn kennitöluflakki og færa valdið til að sekta yfir til hlutafélagaskrár, sem reyndar liggur nú þegar hjá þeim, þ.e. að sekta menn sem ekki skila inn ársreikningum, og ganga til frekari aðgerða gegn þeim sem ekki skila ársreikningum, leggja ábyrgðina á hendur eigenda og stjórnenda eftir tiltekinn tíma, samanber það sem gert er í Noregi, jafnvel þótt við gengjum ekki eins langt og Danir sem láta sektirnar lenda strax og beint á stjórnendum en ekki á lögaðilanum sjálfum. Fara þarf yfir það í upplýsingagjöfinni í ársreikningum hvort ástæða sé til að styrkja eitthvað af ákvæðinu um að menn skuli á hverjum tíma alltaf réttilega greina þar frá breytingum sem kunna að hafa orðið á eignarhaldi og/eða stjórnunarstörfum í viðkomandi félagi og annað sem var undir í fyrstu tillögunum sem við getum kallað fyrstu aðgerðir til að taka á kennitöluflakki. Mér finnst það liggja vel við af því hér er verið að (Forseti hringir.) setja lagaramma til einhverrar einföldunar á því að til geti orðið (Forseti hringir.) rafræn hlutafélagaskrá sem er hið besta mál. (Forseti hringir.) Því ekki þá að nota tækifærið?