144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er viðbúið að við gerum það og köllum til okkar þá aðila sem eru að vinna í þessu og hafa verið að gera lengi.

Ég verð að minna aftur á að það eru að verða tvö ár liðin síðan þetta ágæta starf skilaði þó þeirri greinargerð sem við fengum í hendur í febrúar 2013, sem allgóð samstaða var um, a.m.k. þar sem þar var lagt til í fyrstu umferð. Aðilar vinnumarkaðarins og ekki síst Alþýðusambandið höfðu lagt í þetta mikla vinnu og urðu menn þó ásáttir um þetta þótt þeir deildu síðan um ýmislegt annað og hversu fast ætti að ganga fram. Þar toguðust á ýmis sjónarmið eins og þau að gera það ekki of óþjált að stofna félög og refsa mönnum ekki að tilefnislausu þó að þeir hefðu lent í vandræðum í rekstri og jafnvel orðið gjaldþrota með einhvern rekstur ef það var af óviðráðanlegum ástæðum o.s.frv. Vandinn var að greina sauðina frá höfrunum.

Það sem blasir við hverjum manni og mér varð mjög fljótlega ljóst strax á árunum 2009–2010 þegar við fórum að skoða þetta er að það þarf að taka til í þessum skógi. Þúsundir og aftur þúsundir félaga eru til, sum meira og minna með engan rekstur, kennitölur ofan í skúffum, en eru þarna og geta vaknað til lífsins og eru oft notuð þegar þarf að skutla rekstri yfir á nýja kennitölu. Hér á árum áður virðast þessi félög hafa komist upp með það árum saman að skila ekki einu sinni ársreikningum. Þetta kom meðal annars upp þegar breytingar voru gerðar á útvarpsgjaldinu og farið var að leggja það á lögaðila. Þá allt í einu komu til mörg þúsund greiðendur útvarpsgjalds sem enginn vissi að væru til í landinu, það voru sofandi hlutafélög um dal og hól og niðri í skúffum. Að mínu mati þarf að taka til í þessu og grisja þennan skóg. Það er ekki eðlilegt að þúsundir kennitalna geti beðið einhvers staðar sofandi árum saman. Það þarf að skylda menn til að skila ársreikningum og jafnvel á (Forseti hringir.) það að mínu mati að vera þannig að það kosti eitthvað að halda starfandi og skráðu félagi (Forseti hringir.) án starfsemi þannig að menn geri það ekki að tilefnislausu.