144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að gleðjast yfir því að menn ætli að einfalda þetta, gera þessar skrár rafrænar og gera fólki auðveldara að stofna fyrirtæki. Það er mjög mikilvægt fyrir frumkvöðla og marga sem ætla að fara út í nýjan rekstur með eitthvað sniðugt að allt það ferli sé lipurt. Það er ekki nægilega lipurt í dag og þarf t.d. að fá kennitölu, virðisaukaskattsnúmer, skattnúmer og fleira, það er launaskattsgreiðendaskrá o.s.frv. Við hv. þingmenn þurfum, því að við setjum rammann utan um þessa starfsemi eins og aðra, að gera ferlið það lipurt að það fæli ekki fólk frá eða geri því erfitt fyrir um að stofna fyrirtæki, því nógu erfitt er nú að útvega bæði áhættufé og lánsfé, setja reksturinn í gang og kynna vöruna o.s.frv. Við ættum að gera þetta eins lipurt og okkur er mögulegt.

Við hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason ræddum hér áðan í andsvörum um fyrirtæki og það er ljóst að útvarpsgjaldið, merkilegt nokk, er í raun merki um lífsmark hjá fyrirtækinu. Það var ekkert hugsað þannig en þau þurfa að borga þetta gjald og það er eins konar gjald fyrir að vera á lífi.

Það hefur mikið verið kvartað undan því að ársreikningum sé ekki skilað. Þó að mikið átak hafi verið gert í því undanfarið og margt hafi batnað þá er ljóst að þeir sem ætla að reka fyrirtæki með þeim kostum sem hlutafélagaformið veitir mönnum — að geta tekið þátt í atvinnurekstri og með takmarkaðri ábyrgð — þurfa að uppfylla þessi skilyrði þannig að þeir sem eiga viðskipti við þá, hvort sem það eru birgjar, lánveitendur eða nýir hluthafar, viti eitthvað um reksturinn í gegnum ársreikninga. Það er því mjög mikilvægt að ársreikningar séu virtir.

Ég held að hv. nefnd ætti að fara í gegnum þetta ferli allt saman, hvernig ný fyrirtæki verða til, gera það lipurt og einfalt, hvernig þau starfa og hvernig þau deyja. Þetta sé svipað og með þjóðskrána, þar fæðast menn og lifa og starfa og svo deyja þeir, þá detta þeir út. Þetta þurfum við að skoða.

Ég vil endurtaka að ég held að þetta frumvarp sé mjög til bóta og geri ferlið miklu liprara og það gæti hugsanlega orðið til þess að fleira fólk væri tilbúið til þess að fara út í atvinnurekstur og taka þá áhættu sem því fylgir.